Voðvespnaætt (Pamphiliidae)

Almennt

Tiltölulega fáliðuð ætt af undirættbálki sagvespna (Symphyta). Þekktar eru um 200 tegundir í heiminum og tilheyra þær 8 ættkvíslum sem allar finnast í Evrópu en þar eru tegundirnar 60 talsins.

Ættina er að finna í tempruðu loftslagi umhverfis norðurhvel. Lirfurnar eru plöntuætur sem lifa einkum á barrtrjám. Þær framleiða silki og spinna úr því vefi og voðir um sig eða yfir eða hólk utan um barrnálar sem þær éta.

Voðvespur eru sterkbyggðar með gildan bol jafnbreiðan fram og aftur, einnig um mittið. Höfuð nokkuð stórt með löngum þráðlaga fálmurum. Kvendýrin með stuttan flatan varpbrodd. Litir eru fjölbreytilegir.

Á Íslandi finnst ein tegund sem borist hefur til landsins á síðari tímum með innfluttum trjám og sest að á höfuðborgarsvæðinu.

Höfundur

Erling Ólafsson 27. janúar 2017, 10. mars 2018.

Biota