Geitungaætt (Vespidae)

Almennt

Tegundarík ætt af undirættbálki gaddvespna (Apocrita) með um 5.000 tegundir þekktar í heiminum. Í Evrópu eru 269 tegundir skráðar í 45 ættkvíslum. Því er ljóst að ættin býður upp á mun meiri fjölbreytileika en bara hina alkunnu geitunga.

Sumar tegundir lifa í samfélögum í búum sem samfélögin byggja um sig úr ýmsum byggingarefnum úr náttúrunni, t.d. með pappírsframleiðslu úr trjáviði. Slíkar eru hvað kunnastar og víða illa þokkaðar. Flestar tegundir eru einbúar.

Geitungarnir eru flestir meðalstór til stór skordýr, þeir stærstu risar. Þeir hafa sterkbyggðan bol með frekar harða skel. Frambolur mikill, afturbolur ýmist þykkur eða grannur, þá einkum grannur framan til og er grannt mittið áberandi. Fætur sterklegir. Höfuð stórt, augu há nýrnalaga með hvilft inn í frambrúnina, fálmarar frekar stuttir hnébeygðir. Munnlimir mynda sterka bitkjálka. Varpbroddur sem upphaflega var hefur þróast í stungubrodd sem tengdur er eiturkirtli. Hann hvílir óséður inni í bolnum þegar ekki í notkun til varna. Margir geitungar eru skrautlegir á lit og því afar áberandi. Þetta eru litir rándýrum við varnaðar og hafa mörg óskyld meinlaus skordýr þróað með sér varnarliti. Geitungar nærast á öðrum smádýrum og blómasafa.

Á Íslandi hafa fundist 9 tegundir geitunga, þar af 4 landnemar seinni áratuga og 5 tilfallandi slæðingar.

Höfundur

Erling Ólafsson 27. janúar 2017, 17. mars 2018.

Biota