Húsvinarætt (Latridiidae)

Almennt

Ættin er illa þekkt og fjöldi tegunda óljós. Tölunni 1.050 tegundir hefur verið haldið á lofti en margt er ókannað í þessum fræðum. Til að gefa frekari hugmynd um fjölbreytileikann má geta að í Evrópu eru skráðar 188 tegundir, þar af 56 í Bretlandi. Um er að ræða agnarlitlar bjöllur (1-3 mm), hver tegundin annarri lík sem erfitt er að greina í sundur. Oftast eru þær brúnar, gulbrúnar, stundum svartar, hærðar, stundum með nokkuð sléttu yfirborði en oft með upphleyptri skel eða öðrum óreglum í formi. Hálsskjöldur mjórri en afturhlutinn og eru skilin þar á milli glögg. Fálmarar hárfínir með þriggja liða kólf. Um er að ræða bjöllur sem upp til hópa lifa á sveppþráðum og öðrum líffærum sveppa. Þær eru því yfirleitt rakaháðar. Margar fylgja manninum í rökum viðum húsa, í korni sem raki hefur komist í og mygluðu heyi í gripahúsum. Þær eru í raun ekki skaðvaldar öllu heldur lifa þær á sveppum sem þrífast við óæskilegar aðstæður í híbýlum og víðar.

Á Íslandi hafa verið greindar átta tegundir húsvinarættar. Tvær þeirra finnast í híbýlum, fjórar öllu heldur í gripahúsum og heyhlöðum. Ein hefur meðal annars fundist úti í gömlum skógarlundi og sú síðasta er líkast til innfluttur slæðingur. Húsvinur er gömul nafngift sem ekki allir skrifa upp á því bjöllurnar þykja óskemmtilegar þegar þær taka að hrynja niður úr loftum. Reyndar er í slíkum tilfellum vandamálið annað en bjöllurnar.

Höfundur

Erling Ólafsson 13. október 2016.

Biota