Smellibjallnaætt (Elateridae)

Almennt

Alls eru þekktar um 9.300 tegundir smellibjallna í heiminum. Bjöllurnar eru breytilegar að stærð og litafari, flestar meðalstórar og fara ekki yfir 20 mm. Flestar eru einlitar dökkar og vekja á sér litla athygli. Aðrar eru æði skrautlegar, rauðar, gular, grænar, einkum skjaldvængirnir litaðir, stundum mynstraðir. Þær eru langar, mjókka fram og aftur með mjúkar samfelldar línur. Fálmarar oftast einfaldir, þráðlaga, stundum eins og loftnetsgreiður. Hálsskjöldur kúptur, breikkar hægt aftur og með oddlaga afturhornum. Skjaldvængir oftast með glöggum langrákum. Mikilvægt sérkenni er sérstakt smellikerfi neðan á frambol. Þar er gaddur sem smellt er ofan í þar til gerða gróp. Þegar honum er sleppt feykist bjallan upp í loft með smelli sem mannseyrað nemur léttilega. Þetta gagnast bjöllunum við að skjótast undan afræningjum, einnig ef þær leggjast á hvolf. Þá geta þær skotið sér upp á réttan kjöl. Ef smellibjalla er lögð á bakið á sléttan flöt er þess jafnan skammt að bíða að hún skjóti sér upp. Fullorðnar bjöllur eru á ferli á nóttunni og éta plöntur. Skaði af þeirra völdum er fáséður. Lirfurnar nærast á rotnandi leifum.

Á Íslandi finnst aðeins ein tegund smellibjallna og er hún algeng. Önnur nafngreind tegund hefur slæðst til landsins með innflutningi.

Höfundur

Erling Ólafsson 13. október 2016.

Biota