Spreklufluguætt (Pallopteridae)

Almennt

Ættin er fáliðuð með aðeins um 50 tegundum þekktum í heiminum, einkum tempruðum svæðum beggja vegna miðbaugs. Þar af eru 23 tegundir skráðar í Evrópu.

Flugurnar eru frekar litlar, í mesta lagi meðalstórar, oft gular eða gráar, með flekkótta eða spreklótta vængi. Þær eru frekar veikbyggðar og viðkvæmar, silalegar. Vængirnir eru lengri en afturbolurinn og algengt er að þeir veifi eða titri þegar flugurnar sitja. Þær halda sig gjarnan í skjóli í undirgróðri og á greinum lauftrjáa og runna sem hanga niður undir jörð. Einnig sækja þær í blóm, til dæmis blómsveipi sveipjurta. Lirfurnar eru ýmist plöntuætur, t.d. í blómknöppum og stönglum, aðrar eru rándýr sem lifa m.a. á bjöllulirfum í viði eða á ýmsum öðrum skordýralirfum.

Á Íslandi hafa tvær tegundir fundist, önnur víða um land, hin aðeins enu sinni á Suðvesturlandi, e.t.v. mjög nýlegur landnemi.

Höfundur

Erling Ólafsson 9. janúar 2017.

Biota