Fuglaflóaætt (Ceratophyllidae)

Almennt

Ættin hýsir flær sem lifa á fuglum og nagdýrum og fjölga sér í hreiðrum og bælum þeirra. Hún er tegundarík en ekki liggur fyrir fjöldi tegunda í heiminum. Tegundirnar eru nauðalíkar og krefst það sérfræðiþekkingar að nafngreina þær. Oftar en ekki þarf að meðhöndla eintök sérstaklega til að skoða strúktúra á kynfærum sem eru falin inni í afturbol.

Í Evrópu eru skráðar 110 tegundir í 22 ættkvíslum. Hérlendis hafa 8 tegundir fundist sem tilheyra 4 ættkvíslum. Þar er ættkvíslin Ceratophyllus tegundaríkust með 5 tegundir sem lifa á fuglum allar nema ein en hún hefur einungis fundist í minkabúum. Þrjár ættkvíslir eru með einni tegund hver, tvær sem lifa á fuglum og ein á nagdýrum, einkum rottum.

Höfundur

Erling Ólafsson 23. nóvember 2016.

Biota