Gullmalaætt (Gracillariidae)

Almennt

Gullmelir eru áhugaverð smáfiðrildi. Margar tegundir eru með minnstu fiðrildum, vænghaf 5-20 mm.  Flestar eru afar skrautlegar á lit og glæsilegar þrátt fyrir smæðina og er fræðiheitið af því dregið (ættkvíslin Gracillaria). Margar tegundir eru gylltar svo glyttir á þær í sól, með hvítum beltum og blettum eða allskyns öðru flúri.

Undirættir voru lengstum þrjár og mátti greina á milli þeirra eftir því hvernig fiðrildin sitja. Þeirra tegundaríkust er Gracillariinae. Tegundir hennar sitja á löngum fótleggjum áberandi uppreistar að framan. Tegundir undirættarinnar Lithocolletinae sitja með bolinn láréttan. Þar á íslenska tegundin heima. Tegundir undirættarinnar Phyllocnistinae tegundir reisa sig upp að aftan þannig að bolur hallar fam með höfuð í lægstri stöðu. Við nýlegar rannsóknir þar sem dna-raðgreiningum var beitt fjölgaði undirættum í átta.

Lirfur þroskast inni í laufblöðum hýsilplantna og eru margar tegundir meinlegir skaðvaldar í ræktun nytja- og garðplantna. Margar eru mjög sérhæfðar á hýsilplöntur og er æskilegt að vita hverjar þær eru til að greina torgreindar tegundir. Lauftré og runnar eru algengar hýsilplöntur. Yngstu lirfur eru flatvaxnar með munngerð til að sjúga til sín safa úr laufblöðum en verða síðar sívalar eins og venjulegar fiðrildalirfur með bitmunn til að naga plöntuvefinn. Lirfurnar mynda gjarnan bletti eða blöðrur á blöðunum sem auk þess verpast og spillast. Lirfurnar púpa sig inni í blöðunum.

Gullmelir finnast um heim allan en tegundafjöldi er óljós. Tala nálægt 3000 hefur sést  en gert er ráð fyrir að enn megi finna fjölda ólýstra tegunda. Ættin er tegundaríkust í hitabeltinu. Í Evrópu eru 242 tegundir skráðar í 260 ættkvíslum. Meira en helmingar þeirra tilheyrir einni og sömu ættkvíslinni, Phyllonorycter, sem einmitt hýsir tegund sem nýlega barst til Íslands.

Höfundur

Erling Ólafsson 8. júní 2018.

Biota