Húsakönguló (Tegenaria domestica)

Útbreiðsla

Útbreidd um heim allan.

Ísland: Innanhúss, sennilega í byggðu bóli um land allt þó skráðir fundarstaðir séu allir frá vestan- og norðanverðu landinu, frá höfuðborginni norður og austur um til Mývatnssveitar.

Lífshættir

Húsakönguló finnst hér á landi einungis í tengslum við húsakynni manna, í híbýlum, vöruskemmum og þar sem atvinnustarfsemi er stunduð. Hún er helst þar sem myrkt er og umgangur lítill, í kjöllurum, geymslum og á háaloftum. Húsakönguló lifir á öðrum smádýrum.

Almennt

Húsakönguló finnst einna helst í gömlum húsum bæði í þéttbýli og til sveita. Þar sem hún nær að hreiðra um sig í ró og næði spinnur hún stóra trektlaga vefi. Slíkir vefir koma oft í ljós þegar hreyft er við húsgögnum sem staðið hafa lengi óhreyfð. Húsakönguló er ekki vel þokkuð þrátt fyrir að hún sé frekar til gagns en óskunda í húsakynnum okkar, þ.e. með því að veiða önnur og e.t.v. skaðlegri smádýr. Hún hefur eflaust búið með okkur í langan tíma. Á seinni árum hafa mun stærri ættingjar hennar sest hér að í húsum. Tegundirnar líta allar nánast eins út, einlitar brúnar með daufu mynstri á afturbol, langa fætur og eru hraðskreiðar á hlaupum. Skoða þarf kynfæri við tegundagreiningu. Húsakönguló má þó oftast þekkja á smæðinni þegar samanburður er hafður í huga.

Útbreiðslukort

Heimildir

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 11. nóvember 2013.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Klóskerar (Chelicherata)
Flokkur (Class)
Áttfætlur (Arachnida)
Ættbálkur (Order)
Köngulær (Araneae)
Ætt (Family)
Húsaköngulóarætt (Agelenidae)
Tegund (Species)
Húsakönguló (Tegenaria domestica)