Skartkönguló (Araneus marmoreus)

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa frá Miðjarðarhafi að norðurslóðum, á sömu breiddargráðum austur um M- og N-Asíu til Kyrrahafs og Japans; Norður-Ameríka frá Mexíkóflóa norður undir kuldabeltið.

Ísland: Stakir fundir á Suðvesturlandi, Austurlandi og Norðausturlandi.

Lífshættir

Erlendis finnst skartkönguló einkum í skóglendi, hávöxnum runnagróðri og hávöxnu grasi og gróðri gjarnan með árbökkum. Gerir sér vefi í gróðrinum, t.d. á neðri greinum trjáa. Köngulóin vex upp og þroskast yfir sumarið, verpir nokkur hundruð eggjum í vefhjúp á haustin og drepst þegar haustkuldar ná völdum. Ungviði skríður úr hreiðrinu á vorin og dreifist til allra átta að nokkrum dögum liðnum. Hér á landi er tegundin fágæt og lífshættir hennar því lítt þekktir. Hún hefur fundist í skóglendi og í stafla af vörubrettum. Aðeins fullþroska eintök hafa fundist hér, frá lokum júlí fram í miðjan ágúst.

Almennt

Skartkönguló fannst tvívegis á fyrri hluta 19. aldar, í Þrastaskógi og á Hallormsstað. Árið 2002 fannst hún aftur austur á Héraði og síðan í skógræktinni að Mógilsá í Kollafirði 2007. Að síðustu fannst fallegt kvendýr á Norðurlandi, á Laugum í Reykjadal. Var það í stafla af vörubrettum við húsvegg.

Skartkönguló er breytileg að stærð en kvendýr sem eru stærri en karldýr eru á bilinu 5-14 mm. Byggt á breytileika í útliti hefur tveim afbrigðum verið lýst og þau nefnd, Araneus marmoreus var. marmoreus og var. pyramidatus. Á fyrra afbrigðinu er bolurinn afar skrautlegur og jafnframt breytilegur á lit, oft rauðgulur, gulbrúnn, brúnn með breytilegu mynstri í allskyns litum. Á hinu afbrigðinu er afturbolur að mestu gulur með skírt afmörkuðum brúnum eða rauðgulum flekk aftan til á baki. Bæði afbrigðin hafa fundist hér á landi.

Útbreiðslukort

Heimildir

Heimildir

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls

Roberts, M.J. 1995.  Collins field guide: Spiders of Britain & Northern Europe. HarperCollins Publishers, London. 383 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson, 2. september 2022.

Biota

Tegund (Species)
Skartkönguló (Araneus marmoreus)