Veggjatítla (Anobium punctatum)

Útbreiðsla

Tempruð lönd Evrópu, Asíu, N-Ameríku, Ástralíu og S-Afríku og fjalllendi hitabeltislanda; norður til miðbiks Skandinavíu.

Ísland: Staðfestir fundarstaðir veggjatítlu eru í Reykjavík og Hafnarfirði, á Akranesi, Siglufirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Heimaey. Óstaðfestar sagnir eru um hana víðar á landinu.

Lífshættir

Veggjatítlur alast upp inni í trjáviði, hérlendis eingöngu í byggingarviðum húsa. Á suðlægari slóðum lifir veggjatítla einnig utanhúss, í girðingarstaurum og þess háttar. Bjöllur klekjast úr púpum inni í viðnum og naga sig strax út á yfirborðið. Við það myndast nokkurs konar borgöt á viðinn, þ.e. hin alkunnu ummerki veggjatítlunnar.

Klakið á sér stað í mestum mæli í júní og fyrri hluta júlí og lifandi bjöllur kunna að sjást fram í ágúst. Bjöllurnar eru tiltölulega skammlífar og lifa vart lengur en í tvær vikur. Þær makast fljótlega og kvendýrin verpa 20–60 eggjum sem þau koma fyrir í götum og rifum í viðnum. Eggin klekjast á 2–5 vikum og nýklaktar lirfurnar éta sig dýpra inn í viðinn. Það tekur þær langan tíma að vaxa upp og ræðst tíminn af ríkjandi aðstæðum, viðartegund, rakastigi og hita. Gera má ráð fyrir að uppvöxturinn taki tvö til þrjú ár við kjöraðstæður en mun lengur við lakari kjör. Veggjatítla leggst á ýmsar viðartegundir, bæði barrtré og lauftré, en hraðast gengur uppvöxtur lirfanna fyrir sig í furu, víði og hesli. Kjörhiti lirfa er 22–23°C en þær þrífast ekki fari hiti yfir 28°C. Lirfurnar lifa ágætu lífi við hita undir kjörhita en verulega hægir á vexti og fari hitastig niður fyrir 12°C stöðvast hann alfarið. Hitaþol lítilla lirfa er meira en þeirra stærri.

Loftraki í húsnæðinu skiptir einnig miklu máli, en beint samband er á milli hans og rakastigs í viðnum. Hagstæðust skilyrði skapast við 30% raka í viði sem samsvarar 100% loftraka í rýminu. Falli rakastig í rými niður fyrir 50% og viðar niður fyrir 11% stöðvast vöxtur lirfa. Í húsnæði sem kynnt er eðlilega allan ársins hring er rakastig viðar aðeins 6–10% og fá veggjatítlur þar því ekki þrifist. Í gömlum timburhúsum má þó stundum finna afmarkaða staði þar sem veggjatítlur geta hafst við, t.d. þar sem húshitun nær ekki til, á háaloftum, í kjöllurum og útveggjum. Oft tengist það vatnsleka, t.d. þar sem bárujárnsklæðning er farin að gefa sig, þar sem lekið hefur með gömlum skorsteini eða gluggakörmum svo dæmi séu tekin. Einnig getur verið raki í viðum út frá vatnsleka frá vöskum, baðaðstöðu og salernisskálum eða tærðum vatnslögnum innan veggja. Veggjatítlurnar geta lagst á allskyns tréverk, t.d. stoðir, þilplötur, gluggakarma og gerefti, spónaplötur, tágakörfur og gömul húsgögn, jafnvel bækur sem geymdar hafa verið við óskynsamleg skilyrði.

Í uppvextinum éta lirfurnar sig hægt og bítandi í gegnum viðinn og við það myndast gangar fram og til baka inni í honum. Saur þeirra blandast við viðarduft sem losnar við nagið og við það myndast afar fínt hvítt duft sem sáldrast út um borgötin þegar bankað er í viðinn. Með tímanum geta myndast hvítar dufthrúgur niður af götunum. Þar sem veggjatítlur hafa hafst við í langan tíma verða ummerkin augljós. Yfirborð viðar verður alsett borgötum líkt og skotið hafi verið á það með fínum haglaskotum. Langtíma atlaga veggjatítlna getur veikt burðarvirki húsa og þar með valdið alvarlegum skaða og miklu fjárhagslegu tjóni.

Þegar lirfur hafa náð fullum vexti púpa þær sig inni í viðnum og fullþroska bjöllur skríða úr þeim að u.þ.b. tveim viknum liðnum.

Hvað er til ráða?Það er úr vöndu að ráða þegar ráðleggja skal um aðgerðir til að komast fyrir veggjatítlur í húsum. Af ofanskráðu má þó lesa að allt ræðst þetta af aðstæðum. Því er nokkuð ljóst að fyrsta skrefið er ávallt að reyna að meta aðstæður og útbreiðslu sýkingar í húsinu. Það er ráðlegt að fá glöggan tré- eða húsasmið til að kanna ástand hússins, huga að lekum og mæla rakastig viðar. Slá má á útbreiðsluna með því að kortleggja borgöt, en þó ber að hafa í huga að einnig geti verið um að ræða gömul ummerki. Ekki eru þó allir viðir húsa aðgengilegir og sýnilegir. Þess má geta að þar sem margar lirfur eru að naga má stundum heyra atganginn með því að leggja eyra við þil.

Ef vinna skal bug á veggjatítlum í húsum er það grundvallaratriði að uppræta skilyrðin sem gera þeim kleift að dafna. Mikilvægast er að komast í veg fyrir rakann með öllum tiltækum ráðum og þurrka upp viðina. Í sumum tilfellum getur reynst óhjákvæmilegt að endurnýja viði og getur jafnvel verið nauðsynlegt að ganga nokkuð langt í þeim efnum. Hvert sýkt hús er í raun tilfelli fyrir sig sem þarf að meta og er því ekki hægt að gefa eina einhlíta uppskrift að aðgerðum. Engar líkur eru til þess að eitursvæling dugi, þó vissulega megi slá á fjölda fullorðinna bjallna með því að eitra á flugtíma þeirra á miðju sumri og draga þar með úr varpi. En eitrið er ekki líklegt til að ná til lirfanna inni í viði. Þar mætti vænta meiri árangurs af notkun þunnfljótandi viðarvarnarefna sem viðurinn drekkur í sig. Allar þessar aðgerðir samanlagðar, þ.e. mat vandans, lekaviðgerðir, loftræsting og þurrkun, eitrun á miðju sumri og viðarvörn, gætu mögulega dugað til að uppræta vandann, en mikið ræðst þó af því hversu alvarleg sýkingin er orðin. Ljóst er að ganga verður mjög skipulega til verks og byrgja sig upp af þolinmæði. Ef hægt er að koma við mikilli upphitun má e.t.v. stytta tímann til fullnaðarsigurs. Við 55°C drepast veggjatítlurnar á skömmum tíma, en við lægri hita þarf nokkuð lengri tíma, t.d. 2,5 klukkustundir við 46°C.

Erlendis eiga veggjatítlur sér náttúrulega óvini, bæði sníkjuvespur og bjöllur sem ráðast til atlögu gegn lirfunum. Þær tegundir er ekki að finna hérlendis.

Almennt

Veggjatítlur hafa án efa borist oft til landsins með byggingarviði og húsmunum á árum áður og verið viðvarandi í húsum þó ekki hafi fólk kippt sér upp við það. Elstu heimild um sýkingu af völdum veggjatítlu má sjá í Skýrslu Hins íslenzka náttúrufræðisfélags 1905–6. Í upptalningu muna sem Náttúrugripasafninu höfðu verið gefnir má lesa: „Spýtur etnar af Anobium, úr Rvík.“ Það viðarsýni er nú varðveitt í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Ætla má að veggjatítlur hafi víða mátt finna í húsum á fyrrihluta 20. aldar. Í mörgum gömlum húsum sem enn standa má sjá ummerki eftir veggjatítlur sem hafa horfið vegna breyttra aðstæðna. Með bættum efnahag hafa húseigendur getað kynnt hús sín þannig að viðir hafi náð að þorna og veggjatítlur horfið í kjölfarið. Enn eru veggjatítlur við líði hér á landi í hverfum gamalla húsa. Á seinni árum eru dæmi um hús svo illa farin að þau hafa verið rifin til grunna og viðum fargað. Veggjatítlur hafa einnig sett alvarleg strik í samninga vegna fasteignaviðskipta og nokkur dómsmál hafa hlotist af.

Veggjatítlur eru allbreytilegar að stærð, hérlendis á bilinu 2,8–4,8 mm. Bjallan er staflaga, jafnbreið fram og aftur, sívöl, einlit brún, skjaldvængir tiltölulega langir með áberandi punktaröðum en afar fíngerðri og lítt áberandi gulri hæringu. Hálsskjöldur er ívið mjórri en breiddin yfir skjaldvængina og kýldur upp í kryppu aftan til. Haus er kýttur inn undir hálsskjöld. Lirfurnar eru hvítar og krepptar, nær fótalausar með rauðbrúnan haus.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 12. janúar 2011, 25. nóvember 2013.

Biota

Tegund (Species)
Veggjatítla (Anobium punctatum)