Kragasmiður (Calathus melanocephalus)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, austur eftir Síberíu um Kákasus austur í Trans-Baikal, N-Afríka.

Ísland: Mjög algengur á láglendi um land allt, sjaldgæfur og staðbundinn á miðhálendinu.

Lífshættir

Kragasmið má finna víða. Honum líkar einkar vel þurrt og gróskuríkt graslendi með frjósömum jarðvegi. Hann er algengur í görðum okkar, í grasflötum, blómabeðum og í grasrót með húsveggjum. Fullorðnar bjöllur finnast allan ársins hring en fjöldi þeirra er langmestur frá miðju sumri og fram undir haust. Verulegur fjöldi kragasmiða leggst í vetrardvala á fullorðinsstigi og stundum sjást þeir á kreiki um hávetur þegar aðstæður leyfa. Bjöllurnar æxlast fyrri hluta sumars og verpa. Litlar lirfur fylgja í kjölfarið og sjást helst á miðju sumri en þær þroskast fram á haustið og leggjast í vetrardvala á seinni þroskastigum. Þær púpa sig á vorin að dvalanum loknum. Kragasmiður er rándýr á öllum þroskastigum.

Almennt

Kragasmiður er með algengari bjöllum hér á landi eða alla vega með þeim meira áberandi. Hann finnst við fjölbreytilegar aðstæður og ekki síður í manngerðu umhverfi, í görðum og garðlöndum, í rusli undir húsveggjum o.s.frv., en í villtri náttúru. Hann er mjög kvikur og mikið á ferðinni. Stundum má sjá marga saman taka til fótanna þegar hreyft er við hlutum sem þeir hafa safnast saman undir og leitað skjóls. Annars er kragasmiður einna helst á ferðinni á veiðum að nóttu til. Hann á það til að þvælast úr görðum inn í hús, um opnar dyr eða óþétta karma. Innanhúss lifir hann þó ekki lengi.

Kragasmiður er ein þeirra tegunda sem fólk sem ekki veit betur almennt kallar járnsmið. Hann er þó öllu minni en hinn eini sanni járnsmiður (Nebria rufescens) en þeir félagarnir finnast oft saman, undir sömu fjölinni. Kragasmiður er minni. Bolurinn frekar flatvaxinn og útlínur mjúkar. Höfuð er svart, gljáandi (sbr. fræðiheitið melanocephalus: svarthaus), hálsskjöldur oftast rauðleitur en oft dekkri, allt að svartur, sléttur og gljáandi. Skjaldvængir svartir, mattari en hálsskjöldur, gjarnan með bláleitri áferð, rifflur eftir skjaldvængjum endurlöngum fíngerðar. Fálmarar og fætur oftast samlitir hálsskildi, þ.e. rauðleitir þegar hálsskjöldur er rauður, annars svartir. Því má segja að um sé að ræða tvö litarafbrigði kragasmiðs, rauður eða svartur.

Útbreiðslukort

Heimildir

Ground Beetles of Ireland. Calathus melanocephalus agg. http://www.habitas.org.uk/groundbeetles/species.asp?item=7309 [skoðað 27.6.2012]

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Lindroth, C.H., 1985. The Carabidae (Coleoptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 15, part 1. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd, Leiden, Kaupmannahöfn. 225 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 27. júní 2012

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Bjöllur (Coleoptera)
Ætt (Family)
Járnsmiðsætt (Carabidae)
Tegund (Species)
Kragasmiður (Calathus melanocephalus)