Kóprabjalla (Necrobia rufipes)

Útbreiðsla

Um heim allan.

Ísland: Fágætur slæðingur í Reykjavík, Kópavogi og Reykjanesbæ.

Lífshættir

Fullorðnar bjöllur og lirfur nærast á sömu fæðu og er hún afar fjölbreytt. Þær leggjast á fæðuna utan frá en naga sig ekki inn í hana. Kóprabjalla étur fæðu bæði úr plöntu- og dýraríkinu, en ef hún kemst í kjötmeti verpir hún fleiri eggjum og þroskatíminn styttist. Bjöllurnar leggjast á uppþornuð hræ sem þær naga og sækja mjög í ýmsar aðrar afurðir dýrakyns eins og þurrkaðan fisk, fiskimjöl, kjötmjöl, bein og beinamjöl, gúanó og jafnvel egypskar múmíur. Auk þess veiða þær önnur smádýr, jafnvel lirfur og púpur af eigin tegund. Fullorðnar bjöllur eru langlífar, geta lifað í allt að 14 mánuði. Við góð skilyrði við stofuhita ná þær fullorðinsstigi á um 36 dögum.

Almennt

Kóprabjalla er tilfallandi og fágætur slæðingur hérlendis. Fyrsta eintakið er frá Reykjavík í kringum 1950 og er þess getið í Zoology of Iceland án frekari upplýsinga. Næsta eintak var sennilega einnig frá Reykjavík en komið var með það árið 1973 á Tilraunastöðina að Keldum til athugunar. Nánari upplýsingar liggja ekki heldur fyrir um það. Í desember 2008 fundust í Kópavogi torkennilegar lirfur í poka með innfluttum hundamat. Tveim mánuðum síðar (í febrúar 2009) tóku fullorðnar kóprabjöllur svo að skríða um gólf á heimilinu. Svipað atvik átti sér stað í nóvember 2011 í Reykjanesbæ. Þar komu kóprabjöllur sér fyrir um alla íbúð á skömmum tíma eftir að þeirra hafði orðið vart í poka með innfluttum hundamat. Þær voru upprættar á heimilinu en ný pakkning af hundamat var svo opnuð þar í janúar 2012 og sagan endurtók sig. Í nýju pakkningunni var líka urmull af kóprabjöllulirfum. Vara af þessu tagi er kjörfæða fyrir kóprabjöllur. Það er ljóst að framleiðendur sýktu vörunnar sem flutt hefur verið til landsins á undanförnum árum hafa ekki viðhaft þá aðgát sem þarf til að hún sé boðleg söluvara. Það er rétt að vera á varðbergi gagnvart innfluttum gæludýramat, þar sem kóprabjalla er klárlega meinsemd sem æskilegt er að hleypa ekki inn fyrir landsteina.

Kóprabjalla er falleg bjalla og auðþekkt. Hún er gljáandi blágræn á lit með dökkrauða fætur. Lirfan er mött grábrún, nema haus og næsta bakplata fyrir aftan eru gljáandi rauðbrún. Húnn mjókkar fram á haus. Á afturenda eru tveir hornlaga gaddar.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 20. janúar 2012.

Biota

Tegund (Species)
Kóprabjalla (Necrobia rufipes)