Sjödepla (Coccinella septempunctata)

Útbreiðsla

Evrópa og Asía og hefur náð fótfestu í N-Ameríku eftir ítrekaðan innflutning þangað, finnst einnig í Afríku. Nær norður um alla Skandinavíu.

Ísland: Skráðir fundarstaðir eru á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjanesbæ og Stykkishólmi, en heyrst hefur af tilfellum víðar að af landinu.

Lífshættir

Í nágrannalöndunum er þessi tegund maríubjöllu algeng víðast hvar þar sem blaðlýs er að finna á gróðri. Bæði fullorðnar bjöllur og lirfur éta blaðlýs og gegna mikilvægu hlutverki við að halda þeim í skefjum. Í þeim tilgangi var sjödeplan flutt til N-Ameríku þar sem hún náði fótfestu. Sjödeplan brúar vetur bæði á fullorðinsstigi og sem ungviði.

Almennt

Sjödepla er alltíður slæðingur hér á landi, en hún berst hingað árlega með varningi ýmiskonar. Einna algengast er að hún berist með jólatrjám frá Danmörku og er það sennilega árviss viðburður. Er þá um að ræða fullorðnar bjöllur sem höfðu komið sér fyrir í trjánum til vetrardvalar. Í hugum margra tengist sjödeplan því jólastemningunni og hefur hún útlitið með sér til þess enda skreytir hún stundum útlend jólakort.

Af 51 skráðu eintaki í safni Náttúrufræðistofnunar eru 21 frá desember og janúar. Önnur eru frá tímabilinu maí til nóvember, flest í ágúst og september. Í lok júlí 1976 bar það til tíðinda að mikill fjöldi maríubjallna af þessari tegund skreið um hafnarbakkann í gömlu höfninni í Reykjavík. Þær höfðu borist þangað með skipi sem hafði lagt þar að. Um þær mundir var gríðarlegur fjöldi sjödepla á ferðinni í nágrannalöndum okkar, e.t.v. meira en áður hafði vitnast. Dagblöð í Danmörku og Svíþjóð fjölluðu um viðburðinn fjálglega. Ekki náði tegundin að festa sig í sessi hér á landi þrátt fyrir þessa innrás. Með hlýnandi loftslagi má þó ætla að möguleikinn á landnámi sjödeplu styrkist.

Sumarið 2012 bárust Náttúrufræðistofnun Íslands þrjú eintök þessarar tegundar, sem öll fundust í húsagörðum á höfuðborgarsvæðinu. Ekkert benti til þess að þau hefðu tengst innkaupum af neinu tagi. Það fyrsta fannst 3. maí skríðandi á sólpalli í íbúðahverfi við Kringluna, það næsta 17. júlí við Ásgarð, einnig á sólpalli, og hið síðasta 14. október á jarðlægum svölum við Hörgsholt í Hafnarfirði. Þessi tilvik gætu sannarlega gefið til kynna að sjödeplan sé mætt til leiks. Það verður því fróðlegt að fylgjast með framvindunni á komandi árum.

Sjödepla er dæmigerð maríubjalla en slíkar koma flestum kunnuglega fyrir sjónir. Ein tegund þessara dæmigerðu maríubjallna, flikrudepla (Coccinella undecimpunctata), lifir hér á landi og fleiri berast hingað til lands af og til einkum með ávöxtum og grænmeti. Sjödeplan er stærst þessara tegunda og auðþekkt. Hún er kúpt og fagurlega formuð. Á rauðum, gljáandi skjaldvængjum eru sjö svartir deplar, þrír á hvorum skjaldvæng og einn fremstur og efstur sem flæðir yfir á skjaldvængina báða. Á framhornum hálsskjaldar eru hvítir flekkir. Lirfurnar eru gráleitar með dökka gadda um allan búkinn og nokkrum rauðgulum flekkjum. Rauður litur maríubjallna er afræningjum til viðvörunar og ábending um að varasamt sé að leggja þær sér til munns. Auk þess seyta bjöllurnar bragðvondum vökva úr liðum á fótum. Sjödeplan hefur sterka kjálka og þó hún sé flestra hugljúfi þá á hún það til að bíta þannig vel finnst fyrir.

Útbreiðslukort

Heimildir

Erling Ólafsson 1976. Maríudeplugengdar í NV-Evrópu verður vart á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 46: 134–138.

Fauna Europea. Coccinella septempunctata. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=230443 [skoðað 18.8.2010]

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Wikipedia. Coccinella septempunctata. http://en.wikipedia.org/wiki/Coccinella_septempunctata [skoðað 18.8.2010]

Höfundur

Erling Ólafsson 18. ágúst 2010, uppfært 18. október 2012.

Biota

Tegund (Species)
Sjödepla (Coccinella septempunctata)