Steinkeppur (Otiorhynchus rugifrons)

Útbreiðsla

N-Evrópa og suður í fjalllendi M-Evrópu, í Þýskalandi, Póllandi, Slóvakíu og Ungverjalandi, og austur til Karelíu í Rússlandi; Belgía, Írland, Bretland, Suðureyjar; innfluttur til N-Ameríku.

Ísland: Láglendi um land allt og að hálendismörkum.

Lífshættir

Steinkeppur kýs þurr, snöggvaxin og opin valllendi, gjarnan með blóðbergi (Thymus arcticus). Bjöllurnar eru á ferli að nóttu til og leynast yfir daginn. Þær éta ýmsar plöntutegundir en blóðberg er talið mikilvægt á matseðlinum. Lirfurnar éta rætur plantnanna. Steinkeppur fjölgar sér sennilega án kynæxlunar. Lirfur leggjast í vetrardvala og púpa sig á næsta vori í jarðveginum og það líður nokkur tími áður en bjöllur skríða úr púpum. Þær hafa fundist frá byrjun maí og fram í miðjan október en verða flestar síðsumars.

Almennt

Þó útbreiddur sé á láglendi ber lítið á steinkepp. Það er alls ekki mikið af honum og auk þess leynist hann vel í sandi og möl, en hann er frekar smávaxinn keppur, einlitur svartur og mattur og fer sér hægt.

Útbreiðslukort

Heimildir

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Palm, E. 1996. Nordeuropas Snudebiller. 1. De kortsnudede arter (Coleoptera: Curculionidae) – med særlig henblik på den danske fauna. Danmarks dyreliv 7. Apollo Books, Stenstrup. 356 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Bjöllur (Coleoptera)
Ætt (Family)
Ranabjallnaætt (Curculionidae)
Tegund (Species)
Steinkeppur (Otiorhynchus rugifrons)