Hamgæra (Reesa vespulae)

Útbreiðsla

Upprunnin í N-Ameríku og barst þaðan til N-Evrópu um og eftir 1960.

Ísland: Í byggðarlögum um land allt .

Lífshættir

Innanhúss við þurrar, upphitaðar aðstæður. Fullorðnar bjöllur eru langflestar á ferli á vorin og fyrri hluta sumars og fer þeim fækkandi eftir því sem líður á sumarið. Þær sjást þó stöku sinnum á öðrum ástímum. Fullorðin dýr eru skammlíf og nærast ekki. Eingöngu kvendýr finnast og lirfur skríða því úr ófrjóvguðum eggjum. Hvert dýr verpir um 20 eggjum sem klekjast á um tveim vikum. Þroskatími lirfa er mislangur og ræðst af aðstæðum. Algengt er að uppvöxtur taki eitt ár sem merkir eina kynslóð á ári. Lirfurnar geta verið án vatns og næringar í marga mánuði við stofuhita. Þær taka sér fæðu einna helst úr dýraríkinu. Dauð skordýr eru mjög eftirsóknarverð og þegar bjöllur drepast eru þær umsvifalaust étnar upp. Skordýrasöfn eru því afar viðkvæm fyrir ágangi hamgæra, einnig uppstoppuð dýr og fuglar. Uppþornað kjötmeti, harðfiskur, skinnavara, gróft kornmeti, plöntusöfn eru einnig á matseðlinum. Hamgærur þola illa frost. Frystingu við -10°C þola þær í 16 stundir, en snögga -20°C frystingu þola þær aðeins í eina klukkustund, þó mælt sé með frystingu í allt að tvo sólarhringa. Frystikista dugar því vel til að drepa hamgærur.

Almennt

Hamgæra hefur í langa tíð gengið undir heitinu hambjalla. Þar sem höfundur hefur ákveðið að nefna tegundir ættarinnar Dermestidae gærur með viðeigandi forskeyti var nauðsynlegt að aðlaga heiti tegundarinnar því nafnakerfi.

Hamgæra barst hingað til lands fljótlega eftir að hún náði til Evrópu, en hún fannst fyrst í Reykjavík 1974 sem skaðvaldur í náttúrugripasafni. Í kjölfarið fjölgaði henni ört og var hún á skömmum tíma komin í byggðarlög víða um land. Tegundin varð því fljótlega með algengustu meindýrum í híbýlum okkar.

Hamgæra er auðþekkt frá skyldum tegundum, en hún er í flokki smávaxnari tegundanna (um 3 mm). Höfuð og hálsskjöldur eru svört, skjaldvængir svartir fremst, framan við einkennandi ljósa flekki, en brúnir þar fyrir aftan, ljósastir aftast. Allt yfirborðið er grófhært. Lirfan er brún eða gulbrún að ofan en gulhvít að neðan, að ofan og á hliðum þéttvaxin liðskiptum, stinnum, örvarlaga hárum, sem eru þéttust og lengst á öftustu liðum bolsins. Á hliðum eru auk þess brúskar af löngum, einföldum hárum á hverjum lið og enn lengri hárabrúskur á afturenda, en hann er jafnlangur hálfri bollengdinni.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Åkelund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Erling Ólafsson 1979. Hambjalla, Reesa vespulae (Mill.) (Coleoptera, Dermestidae), nýtt meindýr á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 49: 155–162.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 18. mars 2013.

Biota

Tegund (Species)
Hamgæra (Reesa vespulae)