Hveitibjalla (Tribolium destructor)

Útbreiðsla

Talin upprunnin í hitabelti Afríku en hefur að líkindum borist víða um heim.

Ísland: Í híbýlum víða um land nema á suðaustanverðu landinu.

Lífshættir

Bæði fullorðnar bjöllur og lirfur nærast á mjöli af ýmsu tagi, brauði, makkarónum, fræjum, eggjadufti, þurrmjólk svo eitthvað sé nefnt, einnig dauðum skordýrum. Þær leggja sér þó ekki til munns baunir eða ertur. Hveitibjalla nær að þroska 3–4 kynslóðir á ári. Kjörhitinn er 28°C og við 13°C hættir hún að æxlast. Fjölgun er hröð við bestu aðstæður þar sem hvert kvendýr verpir um 1000 eggjum á æviskeiði sínu, 5–10 á sólarhring. Fullorðnar bjöllur geta lifað í allt að þrjú ár og þraukað mánuðum saman án næringar.

Almennt

Hveitibjalla er meindýr í híbýlum okkar og er rösk að spilla mjölvöru sem hún kemst í. Sér til varnar gefur hún frá sér illa þefjandi gulan vökva (lysol). Ef hún er snert með fingurgómi verður áleitin lyktin viðloðandi á fingrinum í nokkurn tíma á eftir og má þekkja tegundina á því. Sýkt mjölvara lyktar á sama hátt.

Hveitibjalla er bæði dekkri og stærri en nánustu ættingjar. Hún er staflaga, jafnbreið fram og aftur, dökkdumbrauð til svört á lit.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 29. september 2010, 18. mars 2013.

Biota

Tegund (Species)
Hveitibjalla (Tribolium destructor)