Kirkjubokka (Protophormia terraenovae)

Útbreiðsla

Norðurhvel. Evrópa til N-Skandinavíu og hálendis í sunnanverðum Noregi; Svalbarði, Færeyjar. Asía, N-Ameríka, Grænland.

Ísland: Algeng á láglendi um land allt og fundin víða á miðhálendinu.

Lífshættir

Kirkjubokkur finnast víðast hvar svo framarlega sem þær hafa aðgengi af hræjum til að verpa eggjum sínum í. Lirfurnar eru hraðvaxta og við hita um 27°C getur þroskatími frá eggi til flugu tekið aðeins um 11 daga. Við hefðbundnar íslenskar aðstæður er tíminn þó mun lengri. Lirfur geta púpað sig í hræjum ef þau eru ekki of blaut annars skríða þær úr þeim en fara skammt. Frá N-Ameríku eru þekkt dæmi um að flugurnar verpi í lifandi hreindýr, kýr og sauðfé, en slíkt er óþekkt á Norðurlöndum. Kirkjubokkur geta brúað vetur bæði sem fullorðnar flugur og ungviði. Hér á landi er ekki óalgengt að sjá þær á ferli að vetrarlagi þegar hlánar og sólargeislar verma húsveggi þar sem þar höfðu komið sér fyrir til vetrardvalar.

Almennt

Kirkjubokkur leita gjarnan inn í hús, ekki síst í óupphitað húsnæði. Þær safnast gjarnan fyrir í gluggum eyðibýla, sæluhúsa og gamalla sveitakirkna, stundum í miklum fjölda. Ekki fer samt sögum af sérstakri trúrækni þeirra. Þar skríða þær hver um aðra þvera, upp og niður rúðurnar í leit að útgönguleið, silalegar og þyngslalegar á flugi.

Kirkjubokka er auðþekkt frá öðrum maðkaflugum. Hún er einlit og gljáandi á allan bolinn, oftast bláleit en getur slegið yfir í grænleitan gljáa. Lirfurnar eru hefðbundnir hvítleitir, daunillir flugumaðkar og verða ekki aðgreindar frá lirfum annarra maðkaflugna nema með smásjárskoðun.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Nielsen, P., O. Ringdahl & S.L. Tuxen 1954. Diptera 1 (exclusive of Ceratopogonidae and Chironomidae). Zoology of Iceland III, Part 48a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 189 bls.

Jensen, J.-K. & K.A. Thomsen 2009. Nøvn til føroyskar skinfluguslektir og -sløg. Veingjasuð 1: 8–9.

Rognes, K. 1991. Blowflies (Diptera, Calliphoridae) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 24. E.J. Brill/Scandinavian Science Press Ltd., Leiden. 272 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 18. ágúst 2010, 18. október 2011.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Tvívængjur (Diptera)
Ætt (Family)
Maðkaflugnaætt (Calliphoridae)
Tegund (Species)
Kirkjubokka (Protophormia terraenovae)