Ediksgerla (Drosophila melanogaster)

Útbreiðsla

Um heim allan nema á köldustu slóðum.

Ísland: Suðvesturland; Mosfellsbær, Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Hafnarfjörður og Keflavík.

Lífshættir

Ediksgerla finnst hér einungis innanhúss en utanhúss á hún ekki lífsmöguleika. Hún er því á ferli árið um kring. Lifir á vel þroskuðum ávöxtum, ekki síst ávöxtum sem teknir eru að skemmast, einnig á gerjuðum drykkjum, bjór- og víndreggjum og sætum drykkjum eða vökvum sem taka að gerjast við að standa í hita. Flugurnar vía í ávextina eða þornandi dreggjar í flösku- eða dósabotnum. Kvenfluga verpir fjölda eggja og það tekur lirfu ekki nema 10–12 daga að þroskast í fullþroska flugu. Ediksgerla þrífst ágætlega við stofuhita. Viðkoman er af þessum sökum gífurleg. Þar sem ediksgerla leggst fyrst og fremst á matvöru sem þegar er farin að skemmast er vart hægt að telja hana til alvarlegra skaðvalda. Hins getur hún orðið til vandræða og óþurftar vegna mikils fjölda sem er stöðugt leitandi í matvæli til að kanna „gæði“ þeirra.

Almennt

Ediksgerla hefur gengið undir fleiri heitum á íslensku, t.d. bananafluga og ávaxtafluga. Hún er ein mest rannsakaða lífveran, einkum á sviði erfða- og þroskunarfræði. Birtar hafa verið tugir þúsunda greina um rannsóknir á tegundinni. Árið 2000 hafði genamengið verið kortlagt í smáatriðum. Ediksgerla hefur því í langan tíma verið og er enn notuð í tilraunum allskonar og kennslu á framhaldsskólastigum. Margir kannast við bananaflugurnar sem ræktaðar voru í kennslustofunni í ýmsum stökkbreyttum afbrigðum, mörgum hverjum furðulegum, til að skoða hvernig útlitseinkenni erfðust eftir ríkjandi og víkjandi eiginleika viðkomandi gena.

Ediksgerla hefur verið notuð við kennslu hér á landi um áratuga skeið. Vist hennar hér á landi var lengstum einskorðuð við eldiskrukkur í tilraunastofum. Vissulega sluppu flugur stundum úr krukkunum án þess að það drægi á eftir sér dilka. Þess var þó að vænta að fyrr eða síðar færi tegundin að sýna sig víðar en á tilraunastofum því óhjákvæmilegt var að hún myndi berast til landsins með ávaxtasendingum. Sú fyrsta sem staðfest var á heimili fannst í Keflavík í ágúst 1978, ein fluga í eldhúsi og ekki meira. Sennilega tilfallandi slæðingur. Fimm árum síðar fundust ediksgerlur í gamla húsinu í Gufunesi í Reykjavík, þ.e. við þáverandi sorphauga. Árið 1991 var meindýraeyðir boðaður í eldhús í Leifsstöð vegna óværu. Um ediksflugur reyndist vera að ræða. Upp úr þessu fundust þær í auknum mæli í húsum á höfuðborgarsvæðinu.

Ediksgerla hefur fundist við ýmsar ólíkar aðstæður; á heimilum, í mötuneytum, veitingastöðum og verksmiðjum. Flugurnar eru síflögrandi og leitandi og finnast því að öllu jöfnu í námunda við matvæli. Þær eru mjög næmar á ger- og edikslykt. Á heimilum eru þær einna helst í kringum ávaxtaskálar og vaska, gjarnan í vaskskápum þar sem ruslafata stendur og tóm drykkjarílát með gerjandi dreggjum safnast fyrir. Utan heimila og mötuneyta má nefna sælgætisgerð þar sem sykur hafði skolast niður um gólfrist og vínveitingabarir þar sem bjórlöður sullast á borð. Því má segja að ediksgerlur séu hinar einu sönnu barflugur frekar en tónlistin sem þar er spiluð!

Til að vinna á ediksgerlum þarf að vinna skipulega að hreingerningu og að uppræta mögulegar uppsprettur. Eiturherferð verður nefnilega ekki auðveldlega við komið þar sem matreitt er, sérstaklega í mötuneytum og á veitingastöðum. Verkið er auðveldara á heimilum. Þar skulu allir ávextir settir í einangrun og óhrein drykkjarílát, flöskur og dósir, fjarlægð úr rýminu. Þannig má tryggja að flugurnar nái ekki að vía við hentugar aðstæður. Þær eru skammlífar og fjarar því undan þeim á skömmum tíma. Þessu ferli má flýta með því að nýta sér hversu sæknar flugurnar eru í edik. Það má væta borðþurrku, tusku eða bréf, með borðediki eða eplaediki og leggja á skál á vaskborði. Flugurnar laðast að skálinni fljótlega og sverma í kringum hana. Þar má skjóta þær niður með eiturúða sem ætlaður er til heimilisbrúks.

Gerflugnaættin (Drosophilidae) er fjölskipuð ætt. Af ættkvíslinni Drosophila einni saman er mikill fjöldi tegunda í heiminum en alls hefur um 1.500 tegundum verið lýst. Drosophila er komið úr grísku og merkir þann sem sækir í dögg. Hérlendis fannst til skamms tíma aðeins ein þessara tegunda, svokölluð fjósgerla (D. funebris) sem finnst stundum á heimilum en enn frekar í fjósum. Nú eru tegundirnar orðnar þrjár í það minnsta og er ediksgerlan ein þeirra. Hún er agnarsmá, að mestu gul á lit með áberandi rauð augu og heldur dekkri afturbol, sérstaklega karlflugurnar sem hafa nær svartan afturenda (sbr. fræðiheitið melanogaster, svartur kviður). Flugurnar flögra mjög léttilega og leita jafnvel að vitum fólks sem þær laðast ekki síst að þegar viðkomandi skilar sér heim skakkur af öldurhúsinu!

Útbreiðslukort

Heimildir

Biology.Arizona,Edu. An Introduction to Drosophila Melanogaster. http://biology.arizona.edu/sciconn/lessons2/Geiger/intro.htm [skoðað 13.6.2012]

Baechli, G., C.R. Vilela, S. Andersson Escher & A. Saura 2004. The Drosophilidae (Diptera) of Fennoscandia and Denmark. Fauna Entomologica Scandinavica 39. Brill, Leiden Boston.

Wikipedia. Drosophila melanogaster. http://en.wikipedia.org/wiki/Drosophila_melanogaster [skoðað 13.6.2012]

Wikipedia. Drosophila. http://en.wikipedia.org/wiki/Drosophila [skoðað 13.6.2012]

Höfundur

Erling Ólafsson 13. júní 2012.

Biota

Tegund (Species)
Ediksgerla (Drosophila melanogaster)