Baunatíta (Nezara viridula)

Útbreiðsla

Talin upprunnin í Eþíópíu en hefur dreifst um hitabeltislönd og tempruð svæði í öllum heimsálfum, gróft tiltekið á milli 45°N og 45°S. M- og S-Evrópa og nýlegur landnemi (eftir síðustu aldamót) í S-Englandi vegna hlýnunar loftslags. Tegundin barst til Hawaii um 1960 og hefur dreifst til allra eyjanna.

Ísland: Tilfallandi slæðingur á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður), einnig Grindavík, Selfoss, Hvolsvöllur, Borgarnes, Erpsstaðir í Dölum og Neskaupstaður.

Lífshættir

Baunatíta er jurtaæta sem lifir á ýmsum tegundum grænmetis, einkum baunum og sojabaunum og ýmsum fleiri tegundum sem bera ávexti, allskyns tegundum grænmetis sem of langt mál yrði að tíunda. Baunatíta er nefnilega afar fjölhæf í fæðuvali og er tegundir af yfir 30 ættum plantna á fæðulista hennar, bæði einkímblöðungar og tvíkímblöðungar. Hún stingur sograna sínum inn í plöntuvefina, helst þykk laufblöð, blóm og aldin. Hún getur valdið skaða á blómum og aldinum og skert uppskeru. Baunatíta er því skaðvaldur í ræktun matjurta.

Í heitari löndunum gerir baunatítan ekki greinamun á árstíðum og fjölgar sér þar allan ársins hring. Hún tekur hinsvegar vetrarhvíld í löndum þar sem ríkir temprað loftslag. Baunatíta lifir ekki af þar sem meðalhiti vetrar fer undir 5°C. Hins vegar hefur komið í ljós að stærri einstaklingar eru harðgerari en þeir sem minni eru og rauðbrúnir einstaklingar eru harðari af sér en grænir. Það er því ljóst hvaða litarafbrigði kemur til með að fylgja eftir útbreiðsluaukningu.

Kvendýr verpa 30-130 eggjum í klasa neðan á laufblöð. Eggin klekjast eftir eina til þrjár vikur. Nýklakið ungviðið heldur sig saman á tómum eggjaklasanum í um þrjá daga, hafa þá fyrstu hamskiptin af fimm og taka að nærast. Þau halda hópinn áfram allt til þriðja þroskastigs og byggja á meðan upp kemískar varnir gegn afræningjum. Hvert þroskastig ungviðisins tekur um viku þannig að fullorðins stigi er náð á u.þ.b. 35 dögum. Allt að fjórar kynslóðir kunna að þroskast á ári.

Eins og margar tegundir þeftítna (Pentatomidae) gefur baunatíta frá sér daunillan vökva úr kirtlum á kviðnum og verður hann henni vel til varnar. Ef hún er snert með fingri seytir hún varnarvökvanum á fingurinn og verður lyktin viðloðandi lengi á eftir, jafnvel eftir sápuþvott. Baunatíta gefur frá sér mun meiri daun en skyldar tegundir sem reynsla hefur fengist af hér á landi. Einnig er feluliturinn vel virkur og góð flugfærni. Við ónæði forðar hún sér snarlega áflugi eða lætur sig falla niður.

Almennt

Í safni Náttúrufræðistofnunar eru varðveitt alls 73 eintök af baunatítum. Það fyrsta fannst í Reykjavík í nóvember 1985 en það hafði borist í matvöruverslun með agúrkusendingu. Fimm árum síðar fannst næsta eintak á lager hjá ÁTVR. Síðan þá hafa baunatítur borist stofnuninni nær árlega, oftast ein á ári en stundum fleiri og stundum hafa nokkrar fundist saman. Þær berast ekki einvörðungu með ávöxtum og grænmeti heldur einnig í pakkningum utan um allskonar varning. Sem dæmi má nefna að 14 baunatítur bárust með pakkaðri stálvöru frá Ítalíu í október 1991. Í nóvember 2000 var átta baunatítum safnað úr gámi með plastefnum, einnig frá Ítalíu. Baunatítur finnast hér allt árið en langflestar hafa fundist í október og nóvember og nokkru færri í desember og janúar. Aðeins ein hefur fundist á sumartíma (í júlí). Þetta skýrist væntanlega með því að dýr koma sér fyrir á afviknum stöðum til vetrarhvíldar þegar haustar og þær óheppnu hafa valið sér stað í varningi og pakkningum og ekki ráðið högum sínum og örlögum frá þeirri stundu. Af þessum sökum hafa einungis fundist hér fullorðin dýr til þessa. Baunatíta er afar ólíkleg til að nema hér land í bráð.

Baunatíta er dæmigerð þeftíta að gerð, flatvaxin og breið, aðeins 1,5 sinnum lengri en breið. Töluverður breytileiki er í lit. Stundum eru þrjár megingerðir nefndar. Í fyrsta lagi einlit græn dýr (oft án hvítra díla fremst á skutnum(scutum) aftan við stóran hálsskjöldinn; í öðru lagi dekkri grænbrúnar til rauðbrúnar með greinilega dílaröð á skutnum; í þriðja lagi dýr með hvítan fremrihluta höfuðs og framrönd hálsskjaldar. Baunatítur af öllum þessum gerðum hafa fundist hér, en þær dökku í langmestum fjölda. Því litarafbrigði vegnar best í kaldari hluta útbreiðslusvæðisins, ein og þeim löndum sem næst okkur liggja. Þaðan má að sjálfsögðu helst vænta baunatítna með varningi til landsins.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Askew, R.R. 1983. Cyphostethus tristriatus (F.) (Hem. Acanthostomatidae) on Chamaecyparis in South Wales. Entomologist´s mon. Mag. 119: 220.

British Bugs. Nezara viridula. http://www.britishbugs.org.uk/heteroptera/Pentatomidae/nezara_viridula.html [skoðað 25.4.2012]

Fauna Europaea. Nezara viridula. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=454172 [skoðað 25.4.2012]

Knowledge Master. Nezara viridula. http://www.extento.hawaii.edu/kbase/crop/type/nezara.htm [skoðað 25.4.2012]

University of Florida. Entomology & Nematology. Nezara viridula. http://entnemdept.ufl.edu/creatures/veg/bean/southern_green_stink_bug.htm [skoðað 25.4.2012]

Wikipedia. Nezara viridula. http://en.wikipedia.org/wiki/Nezara_viridula [skoðað 25.4.2012]

Höfundur

Erling Ólafsson 25. apríl 2012, 18. janúar 2018, 23. janúar 2018

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Skortítur (Hemiptera)
Ætt (Family)
Þeftítnaætt (Pentatomidae)
Tegund (Species)
Baunatíta (Nezara viridula)