Húshumla (Bombus lucorum)

Útbreiðsla

Evrópa og Asía allt austur til Japans, vestanverð N-Ameríka.

Ísland: Láglendi um land allt og hefur fundist allt upp í um 600 m hæð við Kárahnjúka.

Lífshættir

Húsagarðar og sumarhúsalönd, blómlendi, kjarrlendi, skóglendi eru búsvæði. Hún nærist á frjókornum og safa úr víðireklum á vorin en færir sig síðan yfir á margar tegundir blómplantna. Húshumla er árrisul á vorin en algengt er að hún birtist 19.–20. apríl þó stöku drottning laðist fram fyrr á góðviðrisdögum, jafnvel í mars. Þær sem vakna snemma af dvalanum eru háðar viðju eða dökkvíði (Salix myrsinifolia) og alaskavíði (S. alaxensis) sem blómgast fyrstar víðitegunda. Í villtri náttúru verða þær að bíða þess að loðvíðir (S. lanata) og aðrar íslenskar tegundir skríði. Ný kynslóð drottninga fer að líta ljósið nokkuð fyrir miðjan ágúst og hverfa með öllu af sjónarsviðinu í fyrri hluta október. Búin eru oftast í jörðu og vegghleðslum, oft undir gólffjölum garðhúsa, jafnvel í rusli inni í skúrum og kjöllurum eða háaloftum húsa, í einangrun í veggjum o.s.frv.

Almennt

Húshumlan fannst fyrst hérlendis sumarið 1979 í Reykjavík og Heiðmörk. Hún dreifðist hratt um landið, náði að loka hringnum á skömmum tíma og hafði þá m.a. náð til Hornstranda. Hún var fljót að aðlagast stuttu sumri og öðlast biðlund á vorin þar til íslenskar víðitegundir tóku að blómgast. Húshumla varð fljótt algeng og áberandi. Allir þekkja þessa stóru gulröndóttu, loðnu flugu sem gjarnan þvælist inn um opnar dyr og glugga og hrellir með því viðkvæmar sálir. Hún er þó meinlaus og stingur ógjarnan nema henni sé ögrað með óvarlegum snertingum. Húshumla er grunuð um að hafa hrakið garðhumlu (B. hortorum) af vettvangi. Móhumlan (B. jonellus) smávaxna má sín einnig lítils þegar þær frænkur keppa um sætindi í blómbotnum. Þess vegna tilheyrir þessi nýlegi landnemi hópi ágengra tegunda.

Húshumlan er stór og loðin og randamynstur hennar einkennandi. Á frambol er randamynstrið talið framan frá gult-svart, á afturbol svart-gult-svart-hvítt. Aftari svarta rönd frambols (breið) og fremri svarta rön afturbols (mjó) renna því saman í mikið svart miðbik. Haus er stuttur neðan við augun.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

ARKive - Images of life on earth. White-tailed bumble bee (Bombus lucorum) http://www.arkive.org/white-tailed-bumblebee/bombus-lucorum/range-and-habitat.html [skoðað 7.8.2009].

Prys-Jones, O.E., Erling Ólafsson & Kristján Kristjánsson 1981. The Icelandic Bumble bee fauna (Bombus Latr., Apidae) and its distributional ecology. Journal of Apicultural Research 20: 189–197.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009, 27. mars 2013, 26. apríl 2017

Biota

Tegund (Species)
Húshumla (Bombus lucorum)