Eyraslæða (Gesneria centuriella)

Útbreiðsla

N-Evrópa og fjalllendi M-Evrópu, austur um Rússland og N-Asíu; Kanada, norðurríki Bandaríkjanna, Grænland.

Ísland: Mjög sjaldgæf tegund, algengari á norðanverðu landinu en á Suðurlandi. Á Suðurlandi fundin undir Eyjafjöllum, á Skeiðarársandi og í Skaftafelli í Öræfum. Á Norðurlandi í Langadal í Húnavatnssýslu, Eyjafirði, Fnjóskadal og Öxarfirði, á miðhálendinu við Arnarfell hið mikla, í Hvannalindum og nágrenni Kárahnjúka.

Lífshættir

Eyraslæða finnst í eyrarrósarbreiðum á áreyrum en lirfurnar nærast á eyrarrós (Chamerion latifolium). Sigurskúfur (C. angustifolium) er einnig á matseðlinum erlendis. Þekktur flugtími hérlendis er frá snemma í júlí og fram undir miðjan ágúst. Ekkert er vitað um þroskaferil ungviðisins. Þó má ljóst vera út frá flugtímanum að lirfurnar vaxa upp seinni hluta sumars. Líkast til leggjast þær í vetrardvala hálfvaxnar til að halda vexti áfram næsta vor.

Almennt

Eyraslæða, áður nefnd eyramölur, fannst fyrst hérlendis í ágúst 1972 á flögri sunnan undir Arnarfelli hinu mikla, í miðju landsins, en þar vex eyrarrós á áreyrum. Nokkrum árum síðar fór hún að finnast víðar á landinu en í litlum mæli þó. Flestir fundarstaðir eru um norðanvert landið sem kemur ekki á óvart því tegundin er tiltölulega norðlæg, einna algengust í norðanverðri Skandinavíu og fjalllendi M-Evrópu. Eyraslæða lætur lítið á sér kræla og heldur sig mest í gróðrinum. Það þarf yfirleitt að leita hennar sérstaklega með því að ganga um eyrarrósabreiður og hrekja hana upp. Hún flýgur yfirleitt skammt og stingur sér aftur niður í gróðurinn til að leynast.

Tegundin er auðþekkt frá öðrum smáfiðrildum. Vængirnir eru mun breiðari en á skyldum tegundum og nokkuð breytilegir á lit. Að grunni til eru framvængirnir ljósleitir, misjafnlega þó, gráir, grábrúnir, með dekkra breiðu belti yfir miðjuna, gráleitu í miðju og dekkra brúnu til jaðranna. Lirfur eru óþekktar.

Útbreiðslukort

Heimildir

Downes, J.A. 1966. The Lepidoptera of Greenland; some geographic considerations. Can. Ent. 98: 1135–1144.

Erling Ólafsson 1981. Eyramölur (Gesneria centuriella) fundinn á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 32: 178–181.

Linnaluoto, E.T. & S. Koponen 1980. Lepidoptera of Utsjoki, northernmost Finland. Kevo Notes 5: 1–68.

Wolff, N. 1964. The Lepidoptera og Greenland. Medd. om Grønl. 159 (11): 1–74.

Bugguide. Species Gesneria centuriella - Hodges#4703. http://bugguide.net/node/view/48081 [skoðað 26.1.2011]

Entomology collection. Species Page - Gesneria centuriella. http://www.entomology.ualberta.ca/searching_species_details.php?c=8&rnd=56081121&s=6372 [skoðað 26.1.2011]

Höfundur

Erling Ólafsson 26. janúar 2011

Biota

Tegund (Species)
Eyraslæða (Gesneria centuriella)