Klettafeti (Entephria caesiata)

Útbreiðsla

Evrópa frá norðurslóðum suður til Alpafjalla og fjalllendis í sunnanverðri álfunni, Litla-Asía og norðanverð Asía austur til Japans; Færeyjar.

Ísland: Um land allt, jafnt á láglendi sem hálendi.

Lífshættir

Lyngmóar og kjarrlendi eru kjörlendi klettafeta. Þar heldur hann mest kyrru fyrir að degi til og situr þá gjarnan á stórum steinum og klettum og flýgur á kvöldin. Á kyrrum góðviðriskvöldum má stundum sjá mikinn fjölda á flögri í kjörlendinu. Flugtíminn hefst í lok júní og stendur yfir fram í september. Hámarki nær hann um mánaðamótin júlí/ágúst og aðeins síðbúnar eftirlegukindur sjást eftir 20. ágúst. Lirfurnar nærast á bláberjalyngi (Vaccinium) og e.t.v. í einhverjum mæli á beitilyngi (Calluna vulgaris). Þær leggjast í vetrardvala og taka lokahnykkinn á uppvöxtinn að honum loknum. Þær púpa sig síðan fyrir mitt sumar í þunnum spunahjúp innan um visin laufblöð á jörðu.

Almennt

Klettafeti er mjög algengur hér á landi, e.t.v. algengari á norðanverðu landinu en sunnanlands enda henta heiðalöndin víðfeðmu á Norðurlandi honum afar vel til uppvaxtar. Þó fjöldinn geti verið mikill verður ekki vart við gróðurspjöll af völdum klettafeta.

Klettafeti er með stærstu tegundum feta hér á landi. Hann er yfirleitt mjög einsleitur á lit, grábrúnn eða öskugrár með dekkri bekk þvert yfir miðja framvængina og fína dökka sauma sem bylgjast þvert yfir vængina. Stundum sést litarafbrigði með ljósavængi að undanskyldum dökka bekknum yfir miðjuna og dökkri vængrót. Slíkt sést helst á Norðurlandi en er mun fágætara sunnanlands. Klettafeti er auðgreindur frá öðrum fetum nema bergfeta (Entephria flavicinctata) sem er sjaldgæfur og finnst helst í gljúfurbrekkum. Sá er með gulleita sauma áfram væng og mun hvítari á neðra borði.

Útbreiðslukort

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 26. október 2011.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Fiðrildi (Lepidoptera)
Ætt (Family)
Fetafiðrildaætt (Geometridae)
Tegund (Species)
Klettafeti (Entephria caesiata)