Mófeti (Eupithecia satyrata)

Útbreiðsla

Evrópa frá Miðjarðarhafslöndum til nyrstu héraða Skandinavíu, Færeyjar, austur um Rússland til vestanverðrar Síberíu og M-Asíu austur til Tíbet.

Ísland: Algengur á láglendi um land allt þó fundarstaðir séu enn tiltölulega fáir á norðvestanverðu landinu. Ófundinn á miðhálendinu.

Lífshættir

Mófeti finnst í gróðurríku þurrlendi við fjölbreytilegar aðstæður, t.d. í opnu valllendi, blómlendi, mólendi og kjarrlendi. Lirfurnar éta laufblöð fjölmargra plantna, t.d. vallhumals (Achillea millefolium) og möðrutegunda (Galium). Mófetinn leggst í vetrardvala á púpustigi og er með fyrstu fiðrildum að skríða úr púpum á vorin. Hann fer að fljúga í seinni hluta maí og er fjöldinn mestur í júní. Um miðjan júlí eru mófetarnir horfnir. Lirfurnar vaxa upp frá júní og fram eftir sumri. Þá púpa þær sig fyrir veturinn.

Almennt

Mófeti er eitt mest áberandi fiðrildið hér á landi í júní. Hann er þó mun algengari á landinu sunnanverðu en um landið norðanvert. Mófeti flýgur jafnt að nóttu sem degi á bjartasta árstímanum og ylríkir sólskinsdagar hent honum vel til flugs.

Mófeti telst seint til skrautfiðrilda, einlitur, ljósgrábrúnn eða drapplitur með fíngerðum ljósari bylgjóttum þverröndum sem hverfa þegar vængir slitna með aldrinum. Hann er smávaxinn feti, með tiltölulega mjóa og odddregna framvængi miðað við stærri feta. Hérlendis á mófeti þrjá náskylda ættingja sömu ættkvíslar sem eru allar mjög áþekkar í útliti. Það þarf glögg augu til að greina þær í sundur.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 1. júní 2010.

Biota

Tegund (Species)
Mófeti (Eupithecia satyrata)