Hringygla (Mniotype adusta)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa frá Miðjarðarhafslöndum til nyrstu héraða Skandinavíu, austur um Asíu til Kyrrahafs og suður til Afganistans; einnig á Grænlandi, norður til Uummannak-fjarðar vestan megin og Meistaravíkur austan megin.

Ísland: Víða um land en þó enn ófundin á Vestfjarðakjálka, á miðhálendinu fundin á Kili og í upplandi V-Skaftafellssýslu.

Lífshættir

Hringygla finnst í opnu þurrlendi hverskonar, mólendi og á minna grónu bersvæði. Lirfurnar vaxa upp á tímabilinu frá seint í júní og fram að hausti en þá púpa þær sig fullvaxnar í hjúp sem þær spinna um sig og leggjast í vetrardvala. Lirfurnar nærast á ýmsum plöntutegundum en engar upplýsingar liggja þó fyrir um það hérlendis. Á matseðlinum í Evrópu eru ýmsar tegundir jurtkenndra plantna, runna og lauftrjáa, einnig beitilyng (Calluna vulgaris). Á Grænlandi hafa lirfur fundist á krækilyngi (Empetrum nigrum). Lirfurnar púpa sig í spunahjúpnum þegar vorar og fyrstu fiðrildin fara að fljúga í lok apríl. Þau eru langflest á ferli í júní og eru flest horfin um miðjan júlí.

Almennt

Hringyglur er helst að sjá þjóta um loftin á björtum góðviðriskvöldum í seinni hluta maí og júní en þau fljúga síður að degi til. Þegar lambagras (Silene acaulis) blómstrar snemma sumars laðar það hringyglur til sín. Stundum má sjá nokkrar saman á lambagrasþúfum með sogranana á kafi í blómunum.

Hringygla er meðalstór ygla, í útliti áþekk fleiri tegundum, einkum hrossyglu (Apamea exulis) sem flýgur seinna á sumrinu en hringyglan. Mynstur framvængja þeirra tveggja er oft svipað en hringyglan er jafnan mun dekkri og meiri kontrastar í mynstri sem er svarbrúnt, dökkbrúnt, grábrúnt og með ljósari hringmerkjum og saumum. Á frambol, aftan við höfuðið, er áberandi svartur baugur. Slíkur baugur finnst á fleiri tegundum sem fljúga á öðrum tímum. Yglur á stími um loftin fyrri part sumars eru ýmist hringyglur eða ertuyglur (Melanchra pisi).

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Böcher, J. 2001. Insekter og andre smådyr – i Grønlands fjeld og ferskvand. Forlaget Atuagkat, Nuuk. 302 bls.

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1991. Nordens Ugler. Håndbog over de i Danmark, Norge, Sverige, Finland og Island forekommende arter af Herminiidae og Noctuidae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 5. Apollo Books, Stenstrup. 565 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 5. maí 2010, 11. febrúar 2019.

Biota

Tegund (Species)
Hringygla (Mniotype adusta)