Aðmíráll (Vanessa atalanta)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa, þó fáséð allra nyrst, austur til austanverðs Rússlands, Litlu-Asíu og Írans; N-Afríka, mestöll N-Ameríka suður til Guatemala og Haiti; innflutt til Nýja-Sjálands. Algengur flækingur á Færeyjum.

Ísland: Aðmíráll hefur fundist á láglendi um land allt, en langflestir fundarstaðanna eru á sunnanverðu landinu; einn fundarstaður á miðhálendinu, þ.e. Þjórsárver.

Lífshættir

Aðmírállinn er mikill fluggarpur með ríkt flökkueðli. Hann á sér föst heimkynni í Suður-Evrópu. Að lokinni vetrarhvíld fiðrildanna taka þau á rás norður eftir álfunni og ná til Norðurlanda í lok maí eða byrjun júní og halda áfram að berast úr suðri allt fram í júlí. Fiðrildin verpa síðan þar norður frá og ný kynslóð kemst á flug frá júlílokum og fram á haustið. Þessi haustkynslóð sýnir burði til að fljúga suður á bóginn að hluta til. Sum fiðrildanna koma sér þó fyrir til vetrardvalar sem kann að lukkast í mildum vetrum. Lirfurnar nærast á brenninetlu (Urtica dioica). Eggjunum er komið fyrir á efra borði blaðanna en hvert kvendýr getur orpið allt að 1000 eggjum. Þegar lirfurnar skríða úr eggjum spinna þær um sig vefhjúp og halda sig innan hans allan uppvaxtartímann. Þegar þær stækka spinna þær saman mörg blöð. Fullvaxin lirfa nagar sundur til hálfs toppinn á netlunni þannig að hann leggst niður, spinnur hann svo saman við næstu blöð þar fyrir neðan og útbýr sér þannig tjald sem hún púpar sig inni í.

Almennt

Aðmíráll er tíður og væntanlega árlegur gestur á Íslandi sem fyrst er skráð héðan árið 1901. Stundum berst hingað umtalsverður fjöldi og skrautleg, suðræn fiðrildin vekja þá verðskuldaða athygli á sólríkum sumardögum, ekki síst á sunnanverðu landinu. Þau fyrstu fara að sjást um miðjan maí en yfirleitt þó ekki fyrr en í fyrrihluta júní. Þau berast hingað hvenær sem er sumars eftir það og ræðst það einfaldlega af því hvernig háttar til með loftstrauma frá Evrópu. Algengast er þó að þau komi með haustlægðum í september og byrjun október. Ekki er ljóst hvaðan úr álfunni þessi haustkynslóð kemur. Engin dæmi eru þess að aðmírállinn hafi náð að fjölga sér hérlendis né heldur lifa af vetur.

Aðmírállinn er stórt og fagurt fiðrildi, mikið augnayndi. Vængirnir eru flauelssvartir á lit, framvængir með skærgulu, appelsínugulu skábelti yfir miðjuna og svarta enda með hvítum blettum þar utan við. Með jaðri afturvængja er sömuleiðis appelsínugult belti með svörtum dílum og fagurbláum augnblettum aftast. Á neðra borði er flókið litmynstur sem erfitt er að lýsa en það fellur vel saman við visin, marglit laufblöð að haust- og vetrarlagi, en aðmírálsfiðrildi koma sér fyrir á trjágreinum eða innan um visin laufblöð til vetrarsvefns, með vængina fellda saman upp frá bolnum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Kaaber, S., P. Gjelstrup, D. Bloch & J.-K. Jensen 1994. Invasion af admiralen (Vanessa atalanta L.) og andre sommerfugle på Færøerne i 1992. Fróðskaparrit 41. bók: 125–149.

Stoltze, M. 1996. Danske dagsommerfugle. Gyllendal, Kaupmannahöfn. 383 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 15. september 2010.

Biota

Tegund (Species)
Aðmíráll (Vanessa atalanta)