Fatamölur (Tineola bisselliella)

Útbreiðsla

Tegundin er að öllum líkindum útbreidd í flestum heimshlutum en upplýsingar eru nokkuð misvísandi. Náttúruleg heimkynni í vestanverðri Evrasíu hafa verið nefnd, einnig uppruni í hitabeltislöndum. Dreifist með varningi. Hefur aðeins fundist einu sinni í Færeyjum.

Ísland: Staðfestir fundarstaðir eru á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Hafnarfjörður, Álftanes og Mosfellsbær; einnig Keflavík, Laugardalur og Fljótshlíð á Suðurlandi, Blönduós og Egilsstaðir. Fatamölur er án efa mun víðar á landinu, en margar sagnir eru til um mölfiðrildi í híbýlum. Hins vegar vantar staðfestingar, því fleiri en ein tegund kemur til greina.

Lífshættir

Fatamölur finnst einungis innanhúss og eru fullorðin fiðrildi á ferli allt árið. Þau eru ljósfælin, halda sig fyrst og fremst í skúmaskotum og láta sem minnst fyrir sér fara. Kvendýr taka að verpa mjög fljótlega eftir að hafa skriðið úr púpu, jafnvel innan við viku. Þau verpa eggjum sínum á dýrahár, skinn og gærur, sem lirfurnar nærast á, og stendur varpið yfir í um tvær vikur við stofuhita. Eggin festast ekki heldur liggja laus á milli hára og trefja. Kvendýr drepast þegar öllum eggjaforðanum, allt að 100 eggjum, hefur verð verpt. Þau lifa í allt að þrjár vikur við stofuhita en karldýr mun lengur. Fatamölur lifir þokkalega af við hita vel undir stofuhita en lágur hiti hægir á þroska. Klaktími eggja við 15°C er t.d. 24 dagar en vika við 25°C.

Lirfa gerir um sig rörlaga hjúp úr silki frá kirtlum við munninn, trefjum úr fæðunni og litlum saurkúlum og festir rörið við hárin. Þetta rör getur orðið harla langt, allt að tífalt lengra en lirfan sjálf. Lirfan heldur sig í röri sínu en skríður úr því þegar hún vill komast á beit. Hún þekkir glögglega í sundur dýrahár og þræði plöntukyns, en þar sem hvort tveggja er spunnið saman étur hún einvörðungu dýrahárin. Bómull eða gerviefni lætur hún eiga sig. Skemmdir geta orðið umtalsverðar því lirfan nagar mun meira en hún innbyrðir. Minnstu lirfurnar þurfa, auk keratíns úr hárum, að fá næringarríkari fæðu, t.d. fitu, en á síðari stigum dugar keratínið eitt.

Fæðuframboð, hita- og rakastig hafa áhrif á þroska og vaxtarhraða lirfanna. Við hagstæðustu skilyrði ná þær fullum vexti á 35 dögum en það getur jafnvel tekið nokkur ár ef aðbúnaður er slakur og geta lirfurnar jafnvel lagst í dvala í allt að fjögur ár ef aðstæður eru á versta veg. Við góðan stofuhita (25°C) ná lirfur að púpa sig eftir 45–50 daga uppvöxt. Ef hiti fer undir 10°C eða yfir 33°C nær fatamölur ekki að ljúka þroskaferlinu.

Lirfan gerir sér hjúp úr silkispuna, saur og öðru tilfallandi til að púpa sig inni í. Við stofuhita skríða fiðrildin úr púpum eftir u.þ.b. tvær vikur. Við bestu skilyrði geta allt að fimm kynslóðir þroskast á ári. Á móti þá getur ein kynslóð tekið fjögur ár í harðæri.

Fatamölur getur reynst hinn mesti skaðvaldur á ullarflíkum, skinnum, pelsum, stoppuðum húsgögnum, vegg- og gólfteppum, einnig gripum í dýrasöfnum. Ef hörgull er á kjörfæðunni geta lirfurnar lagst á og skaðað bómull, lín, kork og pappír en þær ná ekki fullum þroska á slíkri fæðu einvörðungu. Þær bjargast þó á sumri mjölvöru ef ekkert annað er að hafa, heldur ósáttar þó. Stór göt geta myndast á flíkur þar sem fatamölur hefur fengið næði til að athafna sig.

Almennt

Fatamölurinn hefur löngum gengið undir heitinu guli fatamölur. Saga hans hér á landi er illa skráð. Þó var hann staðfestur hér á fyrri hluta 20. aldar, en þá var getið um eintak varðveitt í Náttúrugripasafninu, líklega frá Reykjavík. Annars hafa fregnir af fatamöl borist manna á milli í umræðu og skemmdir á ullarflíkum fyrrum voru alþekktar. Þó kunna fleiri tegundir að hafa átt þar hlut að máli, bæði fiðrildi og bjöllur. Á Náttúrufræðistofnun Íslands hefur byggst upp nokkurt safn fatamöls frá árinu 1979, en langflest eintökin eru úr húsum á höfuðborgarsvæðinu.

Kjör fatamöls hafa sennilega daprast með tímanum, eftir því sem híbýli og fatahirslur hafa fallið betur að nýtímakröfum og fólk tók að farga frekar gömlum ullarflíkum heldur en að pakka þeim niður í geymslur. Fatamöl verður þó seint úthýst með öllu. Í seinni tíð hafa fá tilfelli verið skráð um skaðsemi af völdum fatamöls, en hann kemur þó upp af og til.

Getið skal tveggja áhugverðra tilvika þar sem fatamölur varð illviðráðanlegur. Annað tilvikið var á Blönduósi þar sem ull hafði verið troðið niður í kverkar á háalofti gamals húss til þéttingar og einangrunar. Þar var afar líflegt og hafði örugglega verið í langa tíð. Hitt tilfellið er úr eldra húsi í Reykjavík. Þar reyndust fiðrildin skríða út um gat í vegg. Veggir hússins voru holir og lágu þar vatnslagnir innan veggja. Í ljós kom að lagnirnar höfðu einhvern tímann verið vafðar með ull til einangrunar. Lítið var orðið eftir af ullinni, aðeins silkispunar og lirfusaur hjúpuðu lagnirnar.

Fatamölur er með minni fiðrildategundum hér á landi og auðþekktur frá öðrum tegundum í húsum. Hann er einlitur gulur eða gylltur svo að stirnir af honum. Reyndar dregur úr því þegar fiðrildin eldast og slitna. Afturvængir eru ljósari og dauflitaðri. Lirfurnar eru hvítar með brúnleitan haus.

Útbreiðslukort

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Jensen, J.-K. & H.E. Sivertsen 2010. Firvaldar. 155 ymiskir firvaldar í Føroyum. Føroya Skúlabókagrunnur, Thórshavn. 207 bls.

Lindroth, C.H. 1931. Die Insektenfauna Islands und ihre Probleme. Zool. Bidr. 13: 105–589.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Wikipedia.Tineola bisselliella http://en.wikipedia.org./wiki/Tineola_bisselliella [skoðað 23.3.2011]

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 23. mars 2011.

Biota

Tegund (Species)
Fatamölur (Tineola bisselliella)