Kjarrvefari (Apotomis sororculana)

Útbreiðsla

N- og M-Evrópa og austur eftir Síberíu.

Ísland: Láglendi um land allt, fundinn hæst yfir sjó við Blöndulón.

Lífshættir

Kjörlendi kjarrvefara eru birkiskógar og birkikjarr. Fiðrildin fara að skríða úr púpum viku af júní og fljúga í mestum mæli í júní og júlí. Þau eru fáséð í ágúst og eintak sem fannst 1. september er að öllum líkindum af 2. kynslóð en það er óvenjulegt. Lirfurnar nærast á birkilaufum sem þær spinna saman og fullvaxnar, þegar líður að hausti, púpa þær sig á milli laufblaðanna sem síðan falla til jarðar. Púpurnar brúa veturinn til næsta vors.

Almennt

Kjarrvefari er frekar sjaldgæfur hér á landi þó hann sé útbreiddur en venjulega verður aðeins vart við einstök fiðrildi á flögri í birkiskógunum. Hann telst því ekki til skaðvalda á birki. Kjarrvefari þekkist frá öðrum vefurum á stórum hvítum blettum utarlega á framvængjum.

Útbreiðslukort

Heimildir

Bradly, J.D., W.G. Tremewan & A. Smith 1979. British Tortriciod Moths. Tortricidae: Olethreutinae. The Ray Society, London. 336 bls.

Hálfdán Björnsson 1968. Íslensk fiðrildi í skógi og runnum. Ársrit Skógræktarfélags Íslands 1968: 22–25.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009.

Biota

Tegund (Species)
Kjarrvefari (Apotomis sororculana)