Steinfluga (Capnia vidua)

Útbreiðsla

Staðbundin í fjalllendi Mið-Evrópu austur undir Svartahaf og fjalllendi Bretlands, nyrst í Skandinavíu og V-Rússlandi, auk fundarstaðar í Mið-Finnlandi.

Ísland: Láglendi um land allt, á hálendinu norðan Vatnajökuls. Steinfluga er algeng á Suðurlandi og e.t.v. víðar.

Lífshættir

Fullorðnar steinflugur finnast á vorin, frá miðjum mars og fram í maí, á ár- og lækjabökkum og grýttum vatnsbökkum þar sem ölduróts gætir. Þær verpa í vatnið, gyðlurnar vaxa þar upp og ná fullum vexti þegar líður að vori. Þá færa þær sig upp á þurrt og púpa sig í felum undir steinum eða öðru lauslegu. Fullorðin dýr skríða síðan úr púpunum, verpa og hverfa í kjölfar þess. Lirfurnar nærast á vatnagóðri.

Almennt

Tegundinni er skipt í nokkrar undirtegundir. Capnia vidua brachyptera Hynes, 1955 var lýst frá Íslandi. Karldýr undirtegundarinnar eru vænglaus. Undantekningalítið sjást steinflugur einungis snemma á vorin. Sumarið 1979 var þó annað uppi á teningnum. Við Snæfell á Austurlandshálendinu voru steinflugur á ferðinni um mánaðamótin júlí/ágúst. Það sumar var einstaklega kalt og brást sumarkoma gjörsamlega á þeim slóðum. Vorástand ríkti um þær mundir og skömmu síðar féll fyrsti haustsnjórinn. Dæmi eru um að steinflugur hafi klakist í miklum fjölda. Slíkt vitnaðist t.d. á Hellu á Rangárvöllum snemma í maí 1983. Þá þöktu steinflugur veggi húsa sem stóðu næst bökkum Ytri-Rangár.

Útbreiðslukort

Heimildir

Erling Ólafsson 1981. Smádýralíf á Eyjabökkum. Í: Hjörleifur Guttormsson (ritstj.) Náttúrufarskönnun á virkjunarsvæði Jökulsár í Fljótsdal og Jökulsár á Dal, kafli 5.3, bls. 219–238. Orkustofnun, OS81002/VOD02.

Graf, W. & A. Weinzierl 2003. Distribution of Brachyptera starmachi Sow, 1966 and Capnia vidua rilensis Rauser, 1962. Research Update on Ephemeroptera & Plecoptera 2003: 309-311. University of Perugia, Ítalíu.

Hynes, H.B.N. 1955. A note on the stoneflies of Iceland. Proc. R. ent. Soc. London (A) 30: 164–166.

Kuusela, K. 1994. Capnia vidua Klapalek (Plecoptera Capniidae) from Kuusamo. Sahlbergia 1: 29 (áfinnsku).

Lillehammer, A., Magnús Jóhanneeon & Gísli Már Gíslason 1986. Studies on Capnia vidua Klapalek (Capniidae, Plecoptera) popilations in Iceland. Fauna norv. Ser. B. 33: 93–97.

Tuxen, S.L. 1938. Plecoptera and Ephemeroptera. Zoology of Iceland III, Part 39. Munksgaard, Copenhagen. 4 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009.

Biota

Tegund (Species)
Steinfluga (Capnia vidua)