Flatlús (Pthirus pubis)

Útbreiðsla

Útbreiðsla flatlúsar fylgir búsetu manna.

Ísland: Fundarstaðir vanskráðir en hefur væntanlega fylgt manninum víða um land.

Lífshættir

Flatlús er blóðsuga á manninum, heldur sig nær eingöngu í hárvexti á kynfærasvæði og smitast milli einstaklinga fyrst og fremst við mök. Lýs geta losnað af sýktum einstaklingum í rúmföt eða handklæði og borist úr þeim á ósýkta einstaklinga ef ekki líður of langur tími. Talið er að lúsin lifi í mesta lagi tvo sólarhringa laus frá mannslíkamanum, utan ylsins frá honum og raka og án næringar. Flatlús finnst á mönnum um heim allan og gerir ekki greinarmun á kynþáttum.

Flatlúsin er þannig úr garði gerð að henni hentar best líkamshlutar með grófum og ekki of þéttum hárvexti. Kynfærasvæðið með raka sínum og hlýju hentar henni langbest. Klærnar á aftari fótapörum eru grófar og breiðar, vel lagaðar til að grípa um gróf hár. En lýsnar geta komið sér fyrir annars staðar á líkamanum þar sem hárvöxtur er ámóta grófur og ekki mjög þéttur, eins og í handarkrikum, bringuhárum og skeggi, jafnvel í augnabrúnum og augnhárum. Loðinn karlmannslíkami býður því upp á fjölbreytta kosti. Höfuðhár er of fíngert fyrir flatlús þannig að ekki kemur til samkeppni milli hennar og höfuðlúsar. Náinn flatlúsarættingi, Phtirus gorillae, finnst á fjallagórillum (Gorilla beringei). Sú tegund fer víða um loðinn feld hýsilsins. Talið er líklegt að flatlús hafi upphaflega borist af öpum á frummenn. Síðan þegar maðurinn þróaðist yfir í nakta apann dróst búsvæði lúsarinnar saman og hún þróaðist í sjálfstæða tegund.

Kvendýr verpir um þrem eggjum (nitum) á dag og festir þau við hársrætur. Eggin klekjast á 6-8 dögum. Ungviðið þroskast á 10-17 dögum og gengur í gegnum þrenn hamskipti. Fullorðið dýr lifir í allt að mánuð. Lúsin nærist eingöngu á mannablóði og sýgur það úr hýsli sínum 4-5 sinnum á dag.

Flatlúsabit valda kláða, roða og þrota í húð sem ágerist við langvarandi atlögur lúsa. Munnvatnið sem lýsnar seita í stungusárið veldur þessum viðbrögðum. Einnig getur komið fram blágrár litur í húð við stungusár sem stungusár sem viðhelst í nokkra daga. Ekki er kunnugt um að flatlús beri með sér sýkingar. Hins vegar geta gerlasýkingar borist í klórsár.

Flatlúsin er að mestu bundin við fulltíða einstaklinga sem stunda kynlíf og smitast hún fyrst og fremst við nána snertingu hárprúðra líkamshluta. Börn eru því að mestu laus við þessa óværu. Heyrir það til fágætra undantekninga að þau smitist. Nú á tímum er nokkuð algengt að hárvöxtur sé fjarlægður af kynfærasvæðum. Gerir það lúsunum erfitt um vik og hefur það dregið verulega úr flatlúsasmiti í hinum vestræna heimi.

Almennt

Að öllum líkindum hefur flatlúsin eins og höfuðlúsin fylgt manninum hér á landi frá landnámstíð. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gátu um hana í Ferðabók sinni árið 1772. Á fyrri hluta síðustu aldar var talið að hún fyndist varla á landinu utan hafnasvæða eða bæja við sjávarsíðuna, auk þess að hún væri sérstaklega algeng í fiskiskipum. Heldur er sú getgáta undarleg. En vissulega hefur mannlíf verið hvað blómlegast við sjávarsíðuna og náin samskipti fólks hvaðan æva að meiri en inn til lands. Flatlús mun hafa verið nokkuð traust í sessi hér fram eftir síðustu öld en virtist henni fara svo mjög fækkandi að jaðraði við útrýmingu tegundarinnar. Þó koma enn upp örfá tilfelli á hverju ári.

Flatlúsin (1,5–2 mm) er mun smávaxnari en höfuðlús. Lýsingin í textanum um ættina á við að fullu og þarf ekki að endurtaka hana hér.

Útbreiðslukort

Heimildir

Eggert Olafsen og Biarne Povelsen 1772. Reise igiennem Island foranstaltet af Videnskabernes Sælskab i Kjøbenhavn. Sorøe.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Overgaard, Chr. 1942. Mallophaga and Anoplura. Zoology of Iceland III, Part 42. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 22 bls.

Wikipedia. Crab louse. https://en.wikipedia.org/wiki/Crab_louse.

Höfundur

Erling Ólafsson, 4. október 2022.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Liðdýr (Arthropoda)
Undirfylking (Subphylum)
Sexfætlur (Hexapoda)
Flokkur (Class)
Skordýr (Insecta)
Ættbálkur (Order)
Lýs (Psocodea)
Ætt (Family)
Flatlúsaætt (Pthiridae)
Tegund (Species)
Flatlús (Pthirus pubis)