Silfurskotta (Lepisma saccharina)

Útbreiðsla

Silfurskotta er talin upprunnin í hitabeltislöndum en hefur breiðst út um mestallan heim, nema óstaðfest í S-Ameríku.

Ísland: Í byggð víða um land, frá höfuðborgarsvæðinu vestur til Patreksfjarðar; Vogar, Þorlákshöfn og Gnúpverjahreppur á suðvestanverðu landinu, Hofsós og Akureyri á Norðurlandi. Stöðvarfjörður á Austurlandi. Silfurskotta finnst vissulega víðar þó ekki liggi fyrir eintök í söfnum því til staðfestingar.

Lífshættir

Silfurskotta lifir innanhúss og þrífst best við kjörhita 25–30°C og kjörraka 75–97%. Hún er langlíf, getur náð 4–5 ára aldri og haldið áfram að vaxa í þrjú ár löngu eftir að kynþroska er náð. Kvendýr hefur hamskipti aðra eða þriðju hverja viku og verpir eggjum á milli hamskipta. Hún verpir einu til þrem eggjum á dag þá daga, alls um 100 eggjum á æviskeiði sínu. Við stofuhita (22°C) klekjast eggin eftir um 40 daga en á skemmri tíma við hærri hita. Það tekur ungviðið 3–4 mánuði að ná kynþroska við 27°C og getur þurft að hafa hamskipti allt að 50 sinnum. Við óhagstæð skilyrði getur þroskaferlið frá eggi til kynþroska tekið allt að tvö til þrjú ár. Undir 15°C fer enginn þroski fram. Við stofuhita næst mest ein kynslóð á ári. Silfurskottur fjölga sér því ekki hratt nema helst í hitakompum með viðvarandi háu hita- og rakastigi. Silfurskotta er alæta en sterkjurík fæða er í mestu uppáhaldi. Hún étur einnig dauð skordýr, hami eftir silfurskottur, rakan pappír og myglusveppi. Með hjálp ensíma brýtur hún niður sellulósa. Silfurskotta athafnar sig fyrst og fremst á nóttinni þegar kyrrð ríkir. Verði hún ónáðuð óvænt með tendruðu ljósi er hún snögg að koma sér undan.

Almennt

Silfurskotta hefur þekkst héðan frá fornu fari en heimild frá 18. öld segir hana þá algenga í verslunarhúsnæði án þess að frekari staðsetningar sé getið. Næst er hennar getið frá Akureyri 1932 og 1936 og svo í Reykjavík um áratug síðar. Ekki er að efa að silfurskotta hafi verið algeng hér á þessum tímum einkum í upphituðum húsakynnum. Silfurskotta er nú hvað algengust á höfuðborgarsvæðinu, einkum í eldri húsum. Silfurskottur geta spillt matvælum og skaðað bækur, pappír og fleira sem geymt við óviðunandi aðstæður. Annars eru silfurskottur nægjusamar og valda yfirleitt litlum skaða. Þær eru fyrst og fremst hvimleiðar.

Útbreiðslukort

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Högni Böðvarsson 1957. Apterygota. Zoology of Iceland III, Part 37. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 86 bls.

Mohr, N. 1786. Forsøg til en islandsk Naturhistorie med adskillige økonomiske samt andre Anmærkninger. Kaupmannahöfn. 16+413 bls.

Mourier, H. 1995. Husets dyreliv. G.E.C. Gads Forlag A/S, Kaupmannahöfn. 223 bls.

Tuxen, S.L. 1938. Protura und Thysanura aus Island. Vidensk. Meddr dansk natruh. Foren. 102:19–25.

Örnólfur Thorlacius 2009. Silfurskotta. Heima er bezt 59 (10): 467.

Höfundur

Erling Ólafsson 20. nóvember 2009, 6. júlí 2023.

Biota

Tegund (Species)
Silfurskotta (Lepisma saccharina)