Nátvífætla (Boreoiulus tenuis)

Útbreiðsla

Mið- og Norður-Evrópa, norður til sunnanverðs Noregs, sunnan- og austanverðrar Svíþjóðar og SV-Finnlands, suður til Þýskalands, Póllands og Ungverjalands; Bretlandseyjar.

Ísland: Einn fundarstaður, Reykjavík.

Lífshættir

Í nágrannalöndum finnst nátvífætla einkum í mótuðu manngerðu umhverfi, í gamalgrónum görðum, skrúðgörðum og kirkjugörðum, einnig í gróðurhúsum. Heldur sig undir steinum, í rotnandi laufi og dauðum, rotnandi trjám.

Almennt

Þann 14. september 2010 var sveppafræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands á rölti um Hólavallagarð í vesturbæ Reykjavík til að huga að fágætum sveppi sem hann hafði fundið þar árið 2001. Sveppurinn, ígulskrýfa (Pholiota squarrosa), var enn á sínum stað og voru tekin sýni af þroskuðum aldinum hans til nánari skoðunar og varðveislu. Þegar rýnt var í aldinin á rannsóknastofu daginn eftir kom í ljós fjöldi örgrannra, hvítleitra orma sem helst minntu á þráðorma. Við stækkun sást að á ormunum var urmull fóta og því augljóslega um þúsundfætlur að ræða. Tveim dögum síðar var aftur hugað að sveppnum góða þar sem hann óx á stubbi af felldu reyniviðartré. Þá fundust engar þúsundfætlur í aldinum hans en í morknum viði inn undir honum var fjöldi þessara dýra. Þrem árum síðar var náfætlan enn við lýði í þeim sama sveppi.

Lengstu þúsundfætlurnar voru aðeins 10 mm langar og svo grannar að fætur voru ekki sýnilegir með berum augum. Þær voru náhvítar eða rjómahvítar á lit og á hliðum þeirra var röð af áberandi rauðum dílum sem helst minntu á perlufesti. Dílarnir eru kirtlar sem seyta eitri dýrunum til varnar. Þá reyndist tegund þessi alfarið án augna og því blind. Í nágrannalöndunum finnast þrjár tegundir af þessu tagi og varð strax ljóst hver þeirra var þarna á ferð í Gamla kirkjugarðinum. Hún hlaut snarlega íslenska heitið nátvífætla vegna sérstæðs litar og ekki síður vegna fundarstaðarins.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Andersson, G., B.A. Meidell, U. Scheller, J.-Å. Winqvist, M. Osterkamp Madsen, P. Djursvoll, G. Budd & U. Gärdenfors 2005. Nationalnyckeln till Sveriges flora och fauna. Mångfotingar. Myriapoda. Artdatabanken, SLU, Uppsala. 351 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 22. september 2010, 26. janúar 2017

Biota

Tegund (Species)
Nátvífætla (Boreoiulus tenuis)