Húsönd (Bucephala islandica)

Útbreiðsla

Húsönd verpur einkum í vestanverðri N-Ameríku, austast í Kanada og á Íslandi þar sem um 90% fuglanna halda til við Laxá og Mývatn.

Stofnfjöldi

Stofn húsandar hefur sveiflast nokkuð síðan um 1960 en hefur löngum verið talinn allt að 2.000 fuglar; húsöndum fækkaði samfellt á Mývatni 1975−2004, vegna átuskorts en fjölgaði síðan (Árni Einarsson o.fl. 2006, 2011, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, óbirt gögn). Kynjahlutfall er mjög skekkt steggjum í vil og hlutfallslega fáar kollur sem verpa hverju sinni, því er erfitt að meta stofninn í pörum. Húsönd er staðfugl hér á landi en nokkur hundruð fugla dreifast frá Mývatni og Laxá á lindavötn á Suður-, Suðvestur- og Norðausturlandi á vetrum (sjá kort).

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU NT LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 8,1 árTímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1992–2016

Húsönd er frekar fáliðuð en virðist þó hvorki uppfylla skilyrði til válistaflokkunar á grundvelli stofnstærðar (er > 1.000 kynþroska einstaklingar) né stofnþróunar á síðustu árum. Meginþorri stofnsins er hins vegar bundinn við eitt svæði á landinu og telst húsönd því í nokkurri hættu (VU, D2).

Viðmið IUCN: D2

D. Stofn mjög lítill eða takmarkaður.2. Stofn dvelur á mjög takmörkuðu svæði (t.d. minna en 20 km2) eða fáum stöðum (t.d. færri en 5). Slíkum stofni gæti verið hætta búin af umsvifum manna eða af tilviljanakenndum atburðum, fyrirvaralítið einhvern tíma í framtíðinni og þannig komist í bráða hættu eða jafnvel dáið út á skömmum tíma.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Húsönd var flokkuð sem tegund í hættu (EN) á grundvelli takmarkaðrar útbreiðslu og stofnþróunar árin á undan og fækkunar í tiltölulega litlum stofni.

Verndun

Húsönd er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem andarvarp er mikið, skal veiðirétthafa heimilt að taka egg frá húsönd. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Eggin má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.

Válisti

Þar sem húsönd hefur mjög takmarkaða útbreiðslu í Evrópu og stofninn er lítill er hún flokkuð þar sem tegund í yfirvofandi hættu (NT; BirdLife International 2015). Í rökstuðningi fyrir þessari skráningu kemur auk þess fram að mikilvægustu heimkynni húsandar hér á landi kunni að vera ógnað af vatns- og gufuaflsvirkjunum.

Flest húsandarsvæði teljast mikilvæg fyrir stofninn; einkum þó Mývatn–Laxá, Svartá upp af Bárðardal, Kelduhverfi, Þingvallavatn–Sog, Laugarvatn–Apavatn–Brúará (sjá kort) og dvelur nánast allur stofninn á mikilvægum svæðum árið um kring (sjá töflur 1 og 2). Svo til allir húsandarsteggir fella fjaðrir í Mývatnssveit (sjá töflu 3). Þar sem steggir eru í miklum meirihluta og hlutfallslega fáar kollur verpa á hverju ári, eru tölur ekki settar fram í pörum, eða steggjum, þegar mikilvægi einstakra svæða er metið.

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Evrópa (er utan meginútbreiðslusvæðis/marginal) = 20 fuglar/birds; 5 pör/pairs (BirdLife 2016c)

B1 i: A4 i

Töflur

Tafla 1: Húsandarvarp á mikilvægum fuglasvæðum á Íslandi – Breeding Bucephala islandica in important bird areas in Iceland.

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (fuglar) Number (birds)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Svartá–Suðurá1 VOT-N_10 B 125 2016 6,3 A4i, B1i
Mývatn–Laxá2 VOT-N_11 B 1.800 2006–2015 90,0 A4i, B1i, B2
Veiðivötn3 VOT-S_2 B 25 2013 1,3 A4i, B1i
Alls–Total     1.955   97,5  
1Aðalsteinn Örn Snæþórsson o.fl. 2016 2Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, óbirt gögn/unpubl. data 3Örn Óskarsson 2013

Tafla 2: Mikilvægar vetrarstöðvar húsandar – Important wintering sites of Bucephala islandica.*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (fuglar) Number (birds)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Mývatn–Laxá VOT-N_11 W **1.416 2014 70,8 A4i, B1i, B2
Öxarfjörður VOT-N_12 W 53 2005–2014 2,7 A4i, B1i
Veiðivötn1 VOT-S_2 W 58 1977 2,9 A4i, B1i
Laugarvatn–Apavatn VOT-S_5 W 33 2006 1,7 A4i, B1i
Sogið–Þingvallavatn VOT-S_6 W 75 2005–2014 3,8 A4i, B1i
Alls–Total     1.635   (81,8)  
*byggt á vetrarfuglatalningum Náttúrufræðistofnunar Íslands. **Talning náði til meginhluta svæðisins, ekki talið á Laxá neðan Breiðu/survey covered the main part of the area 1Arnþór Garðarsson 1978

Tafla 3: Húsönd, meðalfjöldi steggja í fjaðrafelli við Mývatn – Mean number of moulting male Bucephala islandica at Mývatn.*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (fuglar) Number (birds)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Mývatn–Laxá VOT-N_11 N 1.084 2006–2015 54,2 A4i, B1i, B2
*byggt á Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, óbirt gögn

Myndir

Heimildir

Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2016. Endur á vatnasviði Svartár og Suðurár í Bárðardal. Náttúrustofa Norðausturlands, NNA-1605. Unnið fyrir SSB Orku ehf. Húsavík: Náttúrustofa Norðausturlands.

Arnþór Garðarsson 1978. Íslenski húsandarstofninn. Náttúrufræðingurinn 48: 162–191.

Árni Einarsson, Arnþór Garðarsson, Gísli M. Gíslason og Guðni Guðbergsson 2006. Populations of ducks and trout of the River Laxá, Iceland, in relation to variation in food resources. Hydrobiologia 567: 183–194.

Árni Einarsson, Bergþóra Kristjánsdóttir, Elva Guðmundsdóttir og Þorkell Lindberg Þórarinsson 2011. Mývatn og Laxá: verndaráætlun 2011–2016. Umhverfisstofnun, UST-2011:04. Reykjavík: Umhverfisstofnun.

Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].

BirdLife International 2016. IUCN Red List for birds. http://www.birdlife.org [skoðað 20.10.2016].

Örn Óskarsson 2013. Húsandarvarp í Veiðivötnum. Fuglar 9: 54–59.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Húsönd (Bucephala islandica)

Samantekt á Ensku

The Icelandic Bucephala islandica population is estimated 2,000 birds with most breeding at lake Mývatn and its outlet, river Laxá. Six breeding and wintering areas are designated IBAs for this species, holding most of the population.

Icelandic Red list 2018: Vulnerable (VU, D2), downlisted from EN in 2000.