Rauðhöfðaönd (Mareca penelope)

Útbreiðsla

Rauðhöfðaönd verpur í norðanverðri Evrópu og Asíu til Kyrrahafs. Er farfugl að mestu en nokkur þúsund fuglar hafa hér vetursetu (Náttúrufræðistofnun, vetrarfuglatalningar). Á haustin sjást stundum afar stórir hópar á nokkrum stöðum á landinu, jafnvel yfir 4.000 fuglar. 

Stofnfjöldi

Rauðhöfðaönd er hér tiltölulega algeng og útbreidd, sérstaklega þó á Mývatni, þar sem 1.000−2.000 steggir hafa sést í talningum að vori (Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, óbirt gögn). Giskað hefur verið á að stofninn hér sé 4.000−6.000 pör (Umhverfisráðuneytið 1992). 

Válistaflokkun

NT (í yfirvofandi hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
NT LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 4,15 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 2012-2024

Rauðhöfðaönd hefur fækkað um rúmlega 40% á viðmiðunartímabilinu skv. talningum á Mývatni (Yann Kolbeinsson o.fl. 2023). Vísitölur úr vetrarfuglatalningum hafa þó sýnt fjölgun (sjá graf) en þar sem rauðhöfðaendur eru að mestu farfuglar er óvíst að þær talningar nái vel yfir stofnþróun. Rauðhöfðaönd er því flokkuð sem tegund í yfirvofandi hættu (NT).

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Rauðhöfðaönd var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Rauðhöfðaönd var ekki í hættu (LC).

Verndun

Rauðhöfðaönd er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem andarvarp er mikið, skal veiðirétthafa heimilt að taka egg frá rauðhöfðaönd. Við slíka eggjatöku skulu ávallt skilin eftir minnst fjögur egg í hverju hreiðri. Eggin má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða rauðhöfðaönd frá 1. september til 15. mars.

Mikilvæg svæði

Engir varp-, viðkomu-, fjaðrafellistaðir eða vetrarstöðvar hér á landi teljast alþjóðlega mikilvægar fyrir rauðhöfðaendur.

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Evrópa = 18.800 fuglar/birds; 6.293 pör/pairs (Wetlands International 2016)

B1 i: NV- og NA-Evrópa/V-Síbería = 14.000 fuglar/birds; 4.667 pör/pairs (Wetlands International 2016)

Myndir

Heimildir

Umhverfisráðuneytið 1992. Iceland: national report to UNCED. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].

Yann Kolbeinsson, Snæþór Aðalsteinsson, Árni Einarsson, Aðalsteinn Örn Snæþórsson, & Þorkell Lindberg Þórarinsson 2023. Ástand fuglastofna í Þingeyjarsýslum 2021-2023. Sótt 3. Mars 2025 af: https://nna.is/wp-content/uploads/2024/01/2306-Fuglavoktun-2021-2023.pdf

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Andfuglar (Anseriformes)
Tegund (Species)
Rauðhöfðaönd (Mareca penelope)

English Summary

The Mareca penelope population is roughly estimated 4,000‒6,000 pairs. No areas in Iceland meet IBA criteria for this species.

Icelandic Red list 2025: Near threatened (NT).