
Útbreiðsla
Lundi verpur við N-Atlantshaf og er mest af honum við Ísland, Noreg og Færeyjar. Hann er alger farfugl.
Stofnfjöldi
Lundinn er algengasti fuglinn á Íslandi og var stofninn áætlaður um 2 milljónir para (Erpur Snær Hansen o.fl. 2014, Arnþór Garðarsson og Erpur Snær Hansen, í undirbúningi). Hann verpur umhverfis landið, oftast í eyjum eða hólmum og er langstærsta byggðin (ríflega 800 þúsund pör) í Vestmannaeyjum (sjá kort; Erpur Snær Hansen o.fl. 2011).
Sílaleysisárin frá því um 2005 hafa reynst lundanum þung í skauti og hefur honum fækkað verulega síðan.
Válistaflokkun
CR (tegund í bráðri hættu)
Ísland | Evrópuválisti | Heimsválisti |
---|---|---|
CR | EN | VU |
Forsendur flokkunar
Kynslóðalengd (IUCN): 17,03 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1998-2049
Rannsóknir Náttúrustofu Suðurlands benda til þess að viðkoma lunda á meginvarpsvæði hans við sunnan- og vestanvert landið hafi verið góð á kuldaskeiðum í hafinu (1965–1996) en afar lítil á hlýskeiðum (1931–1965, 2003–2005) (Hansen o.fl. 2021). Árið 2021 varð mikil aukning í viðkomu Lunda í Vestmannaeyjum og var það fyrsta árið sem stofnvöxtur var sjálfbær, þ.e. nógu mikill til að viðhalda stofninum í núverandi stærð, síðan í kringum aldamótin 2000 (Erpur Snær Hansen 2021).
Við afmörkun viðmiðunartímabils er notast við árið 1998 sem upphafsár en þá hófst áreiðanlegri söfnun veiðigagna í gegnum veiðiskýrslur. Stofnlíkan sýnir að fækkað hefur verulega í lundastofninum síðan 1998 og nemur fækkunin yfir 50% eða um 3% á ári (Johnson et al. 2024). Ef þessi fækkun heldur áfram út viðmiðunartímabilið (1998–2049) mun það leiða til >80% fækkunar í íslenskum varpstofni lunda. Á grundvelli þessa er lundinn flokkaður í bráðri hættu (CR, A4abc).
Viðmið IUCN: A4abc
A4. Fækkun í stofni ≥80% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt eftirtöldum atriðum:
(a) beinni athugun,
(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni,
(c) samdrætti á dvalar- eða varpsvæði, útbreiðslusvæði og/eða hnignun búsvæðis.
Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)
Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)
Eldri válistar
Válisti 2000: Lundi var ekki í hættu (LC).
Válisti 2018: Lundi var í bráðri hættu (CR).
Staða á heimsvísu
Lunda fækkar einnig í Noregi sem ásamt Íslandi hýsir stærstu lundastofna heimsins. Því er lundinn nú skráður í nokkurri hættu (VU) á heimsválista og í hættu (EN) á evrópskum válista (BirdLife International 2015).
Verndun
Lundi er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka lunda telst taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.
Á takmörkuðum svæðum, þar sem veiði fullvaxinna lunda í háf töldust til hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis. Veiðar þessar hefjist ekki fyrr en 1. júlí og ljúki eigi síðar en 15. ágúst.
Samkvæmt reglugerð 765/2017 er heimilt að veiða lunda frá 1. september til 25. apríl.
Mikilvæg svæði
Alls eru 10 lundavörp hér flokkuð sem alþjóðlega mikilvæg og nær allur stofninn (um 98%, verpur sennilega innan mikilvægra fuglasvæða (sjá töflu).
A4 ii: heimsstofn/global 56.783 pör/pairs (Wetlands International 2016).
B1 ii: Ísland/Noregur/SV-Grænland/N-Ameríka = 45.000 pör/pairs (Wetlands International 2016).
Töflur
Mikilvæg lundavörp á Íslandi – Important colonies of Fratercula arctica in Iceland.*
Svæði Area | Svæðisnúmer Area code | Árstími Season | Fjöldi (pör) Number (pairs) | Ár Year | % af íslenskum stofni % of Icelandic popul. | Alþjóðlegt mikilvægi International importance |
---|---|---|---|---|---|---|
Borgarfjörður–Löngufjörur | SF-V_6 | B | 40.000 | 2014 | 2,0 | A4iii, B1ii, B2 |
Breiðafjörður | SF-V_8 | B | 377.250 | 2014 | 18,6 | A1, A4ii, A4iii, B1ii, B2 |
Látrabjarg** | SF-V_13 | B | 50.000 | 2000 | 2,5 | A4iii, B1ii, B2 |
Vigur | SF-V_26 | B | 28.800 | 2015 | 1,4 | A4iii |
Borgarey | SF-V_27 | B | 43.350 | 2014 | 2,1 | A4iii, B2 |
Grímsey á Steingrímsfirði | SF-V_38 | B | 23.250 | 2015 | 1,1 | A4iii |
Drangey | SF-N_2 | B | 33.900 | 2014 | 1,7 | A4iii, B2 |
Lundey á Skagafirði | SF-N_3 | B | 20.400 | 2014 | 1,0 | A4iii |
Málmey | SF-N_4 | B | 33.450 | 2014 | 1,7 | A4iii, B2 |
Grímsey út af Eyjafirði | SF-N_8 | B | 40.275 | 2015 | 2,0 | A4iii, B2 |
Lundey á Skjálfanda | SF-N_9 | B | 27.375 | 2015 | 1,4 | A4iii |
Mánáreyjar | SF-N_10 | B | 28.050 | 2014 | 1,4 | A4iii |
Skrúður | SF-A_8 | B | 149.100 | 2014 | 7,4 | A1, A4ii, A4iii, B1ii, B2 |
Papey | SF-A_11 | B | 132.750 | 2014 | 6,6 | A1, A4ii, A4iii, B1ii, B2 |
Vestmannaeyjar | SF-S_4 | B | 840.375 | 2015 | 41,5 | A1, A4ii, A4iii, B1ii, B2 |
Önnur mikilvæð svæði Other important areas |
B | 124.024 | 6,1 | |||
Alls–Total | 1.992.348 | (98) | ||||
*byggt á Arnþór Garðarsson og Erpur Snær Hansen, í undirbúningi. **Ólafur Einarsson, 2000. |
Myndir


Heimildir
Arnþór Garðarsson og Erpur Snær Hansen. Lundatal. Í undirbúningi.
Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf[skoðað 20.10.2016].
Erpur Snær Hansen 2016. Stofnþróun lunda 2003–2015 og sjálfbærni veiða. Veiðidagbók Umhverfisstofnunar 2016: 21. https://www.ust.is/veidi/veididagbaekur/ [skoðað 29.4.2020].
Erpur Snær Hansen, Magnús Sigursteinsson og Arnþór Garðarsson 2011. Lundatal Vestmannaeyja. Bliki 31: 15–24.
Erpur Snær Hansen, Arnþór Garðarsson og Kristján Lilliendahl 2014. The breeding population size of the Atlantic Puffin in Iceland [ágrip]. Í 12th International Seabird Group Conference, Merton College, Oxford, March 21st–23rd 2014: oral presentations, bls. 76. https://oxnav.zoo.ox.ac.uk/sites/default/files/final_abstracts_PDF.pdf [skoðað 16.9.2016].
Erpur Snær Hansen 2021. Stofnvöktun Lunda 2021. Áfangaskýrsla til Umhverfisstofnunar. https://nattsud.is/wp-content/uploads/2021/12/2021-Stofnvoktun-lunda-Afangaskyrsla-Final.pdf
Hansen, E.S., Sandvik, H., Erikstad, K.E., Yoccoz, N.G., Anker-Nilssen, T., Bader, J., Descamps, S., Hodges, K., Mesquita, M.d.S., Reiertsen, T.K. and Varpe, Ø. (2021), Centennial relationships between ocean temperature and Atlantic puffin production reveal shifting decennial trends. Glob Change Biol, 27: 3753-3764. https://doi.org/10.1111/gcb.15665
Johnson, F., Walters, C., & Hansen, E. (2024). Icelandic puffin stock assessments 2024. https://doi.org/10.13140/RG.2.2.12927.42405/1
Ólafur Einarsson 2000. Iceland. Í Heath, M.F. og M.I. Evans, ritstj. Important Bird Areas in Europe: Priority sites for conservation. Volume I – Northern Europe, bls. 341–363. Cambridge: BirdLife International.
Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search[skoðað 26. nóvember 2016].
Höfundur
Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018
Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025.
- Tegund (Species)
- Lundi (Fratercula arctica)
English Summary
Fratercula arctica is the most common breeding bird in Iceland with approx. 2 million pairs; ten colonies are of international importance (≥10,000 pairs) and approx. 98% of the population breeds within IBAs.
Icelandic Red list 2018: Critically Endangered (CR, A4abc), uplisted from Least concern (LC) in 2000.