Tjaldur (Haematopus ostralegus)

Útbreiðsla

Tjaldur verpur víða í Evrópu og Asíu og er hér allalgengur og útbreiddur. Tjaldur er að mestu farfugl, en nokkur þúsund fuglar dvelja hér á vetrum, og þá að langmestu leyti við Breiðafjörð, Faxaflóa og í Hornafirði (sjá kort 1).

Stofnfjöldi

Tjaldsstofninn hefur verið áætlaður 10.000−20.000 pör (Umhverfisráðuneytið 1992) en nýlegra mat er 13.000 pör (Kristinn Haukur Skarphéðinson o.fl. 2017). Tjaldur breiddist út í Öræfum (Hálfdán Björnsson 1976) og á Norðurlandi á síðustu öld (Finnur Guðmunds­son 1951). Stendur sú þróun hugsanlega enn yfir, t.d. á Ströndum en þar fjölgaði fuglum verulega á árunum 1995 til 2007 (Jón Hallur Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir 2009).

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Tjaldur er láglendistegund sem finnst með ströndum og við ár og vötn umhverfis allt land (sjá kort 2). Er algengastur á graslendi (3,1 par/km²) og í ræktarlandi (2,0 pör/km²) (Kristinn Haukur Skarphéðinson o.fl. 2017). Mikilvægasta vistlendið er graslendi þar sem 54% af reiknuðum 13.000 para stofni er að finna. Um 37% tjaldastofnsins reiknast innan mikilvægra fuglasvæða og þá að langmestu leyti á Suðurlandsundirlendi eða um 30% (sjá töflu). Þess skal getið að litlar sem engar mælingar fóru fram á þeim svæðum þar sem varpútbreiðsla tjalds er að mestu línuleg, við strendur og ár, en þar verpa þeir sums staðar mjög þétt.

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU VU NT

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 12,85 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1985-2024

Talningar sýna að tjöldum fækkaði  að meðaltali um 6% á ári á Suðurlandsundirlendinu milli 2012-2024 (Pálsdóttir et al. 2024). Vetrarfuglatalningar sýna þó mikla aukningu í tjöldum sem sjást hér við land á veturna (sjá graf). Samkvæmt nýlegri rannsókn er talið að um 1/3  tjaldastofnsins dvelji á Íslandi yfir veturinn (Böðvar Þórisson o.fl. 2018). Mögulega endurspegla vetrarvísitölur fjölgun vetrarsetufugla fremur en fjölgun í stofni hérlendis, einkum þar sem vísitölur frá vetrarstöðvum íslenskra tjalda í NV-Evrópu sýndut stöðuga fækkun um 1,8% á ári eða um 35% 1998–2012 (van Roomen o.fl. 2015). 

Vísitölur frá Evrópu sýna að tjaldinum fækkaði um 20-29% milli 1979-2020 (Birdlife, 2019). Tjaldur er því flokkaður í nokkurri hættu (VU) í Evrópu. Haldi fækkunin á Suðurlandi áfram mun tjaldi fækka um allt að 90% á þeim tíma sem nemur einu viðmiðunartímabili (39 ár). Þar sem sambærilegar talningar vantar úr öðrum landshlutum verður tjaldur því hér einungis flokkaður í nokkurri hættu, fækkun >30% á viðmiðunartímabili (VU, A4b).

Viðmið IUCN: A4b

A4. Fækkun í stofni ≥30% á einhverju 10 ára tímabili eða sem nemur þremur kynslóðum, hvort sem er lengra (í allt að 100 ár í framtíðinni) og verður tímabilið að ná bæði til fortíðar og framtíðar OG þar sem fækkunin eða orsakir hennar hafa ekki stöðvast EÐA eru óþekktar EÐA eru óafturkræfar; byggt á athugun, mati, ályktun eða grun samkvæmt:
(b) stofnvísitölu sem hæfir tegundinni.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Tjaldur var ekki í hættu (LC).

Válisti 2018: Tjaldur var í nokkurri hættu (VU).

Staða á heimsvísu

Þar sem tjaldi hefur fækkað víða er hann nú á heimsválista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) og á Evrópuválista sem tegund í nokkurri hættu (VU; Bird­Life International 2015).

Verndun

Tjaldur er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Mikilvæg svæði

Engir viðkomustaðir eða vetrarstöðvar tjalda hér á landi teljast alþjóðlega mikilvægar. Hornafjörður eða Skarðsfjörður kemur hugsanlega til greina en vorið 1988 var talið að meira en 7.000 tjaldar hafi farið þar um en flestir voru þeir samtímis rúmlega 1.000 (Thiedemann 1990).

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Evrópa = 8.027 fuglar/birds; 2.676 pör/pairs ­(Wetlands International 2016)

B1 i: NV-Evrópa/NV-Afríka (vetrarstofn/winter) = 8.000 fuglar/birds; 2.667 pör/pairs (Wetlands International 2016)

Töflur

Reiknaður fjöldi tjalda sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Haematopus ostralegus within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*

Svæði
Area
Svæðisnúmer
Area code
Árstími
Season
Fjöldi (pör)
Number (pairs)
Ár
Year
% af íslenskum stofni
% of Icelandic popul.
Alþjóðlegt mikilvægi
International importance
Borgarfjörður–Löngufjörur FG-V_10 B 191 2013 1,5  
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 3.961 2013 30,6  
Önnur mikilvæg svæði
Other important areas
  B 585 2013 4,5  
Alls–Total     4.737   36,6  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn

Myndir

Heimildir

Birdlife International 2015. European red list of birds. Luxembourg: Official publication of the European communities. http://datazone.birdlife.org/userfiles/file/Species/erlob/EuropeanRedListOfBirds_June2015.pdf [skoðað 20.10.2016].

BirdLife International (2019). Species factsheet: Eurasian Oystercatcher Haematopus ostralegus. Downloaded from https://datazone.birdlife.org/species/factsheet/eurasian-oystercatcher-haematopus-ostralegus [skoðað 10.03.2025].

Böðvar Þórisson, Verónica Méndez, José A. Alves, Jennifer A. Gill, Kristinn H. Skarphéðinsson, Svenja N.V. Auhage, Sölvi R. Vignisson, Guðmundur Ö. Benediktsson, Brynjúlfur Brynjólfsson, Cristian Gallo, Hafdís Sturlaugsdóttir, Páll Leifsson & Tómas Grétar Gunnarsson (2018) Population size of Oystercatchers Haematopus ostralegus wintering in Iceland, Bird Study, DOI: 10.1080/00063657.2018.1478797

Finnur Guðmundsson 1951. The effects of the recent climatic changes on the bird life of Iceland. Proc. Int. Orn. Congr. 10: 502–514.

Hálfdán Björnsson 1976. Fuglalíf í Öræfum, A.-Skaft. Náttúrufræðingurinn 46 (1–2): 56–104.

Jón Hallur Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir 2009. Tjaldur á Ströndum. Bliki 30: 65–69.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.

Pálsdóttir, A. E., Þórisson, B., & Gunnarsson, T. G. (2025). Recent population changes of common waders and passerines in Iceland’s largest lowland region. Bird Study, 1–13. https://doi.org/10.1080/00063657.2025.2450394

Thiedemann, R. 1990. Untersuchungen zum Frühjahrsdurchzug der Limikolen (Charadriiformes) in Südöst-Island. Christian-Albrechts Univ. Kiel, Diplomarbeit

Umhverfisráðuneytið 1992. Iceland: national report to UNCED. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

van Roomen M., S. Nagy, R. Foppen, T. Dodman, G. Citegetse og A. Ndiaye 2015. Status of coastal waterbird populations in the East Atlantic Flyway. With special attention to flyway populations making use of the Wadden Sea. Leeuwarden, Hollandi: Programme Rich Wadden Sea; Nijmegen, Hollandi: Sovon; Wageningen, Hollandi: Wetlands International; Cambridge, Englandi: BirdLife International og Wilhelmshaven, Þýskalandi: Common Wadden Sea Secretariat. http://www.waddensea-secretariat.org/sites/default/files/downloads/status_coastal_birds_eaf_2014_1.pdf [skoðað 15.5.2017].

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir og Borgný Katrínardóttir mars 2025


Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Strandfuglar (Charadriiformes)
Tegund (Species)
Tjaldur (Haematopus ostralegus)

English Summary

The Haematopus ostralegus population in Iceland is estimated 13,000 pairs, based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution; 37% may nest in IBAs designated for other species.

Icelandic Red list 2018: Vulnerable (VU, A4b), uplisted from LC in 2000.