Músarrindill (Troglodytes troglodytes)

Útbreiðsla

Músarrindill verpur í Evrópu, nyrst í Afríku og hér og hvar í Asíu til Kyrrahafs. Stofn sem verpur í N-Ameríku er nú talinn til sérstakrar tegundar (T. hyemalis). Íslenskir músarrindlar eru taldir sérstök deilitegund (Troglodytes troglodytes islandicus; Amouret o.fl. 2016a) og eru algerir staðfuglar.

Stofnfjöldi

Músarrindill er strjáll varpfugl víða á láglendi, langmest í birkikjarri og birkiskógum en einnig sums staðar í grónum urðum, sjávarbjörgum og síðustu ár í skógræktarreitum. Giskað hefur verið á að varp­stofninn sé 3.000−5.000 pör (Náttúrufræðistofnun Íslands 2000). Varpútbreiðslan hefur eitthvað aukist á seinni árum og fuglum hugsanlega fjölgað, nú verpa þeir t.d. allvíða í jaðri höfuðborgarsvæðisins. 

Samkvæmt stopulum athugunum í Mývatnssveit á árunum 1961−2000 sveiflaðist stofninn þar mikið og virtust þær breytingar tengjast meðalhita undangengins vetrar (Bengtson 2004). Vetrarfuglatalningar Náttúrufræðistofnunar sýna einnig miklar sveiflur, en stofnvístala 1952−2014 hefur vaxið nokkuð samfellt frá því upp úr 1990.

Dreifing og þéttleiki eftir vistlendum: Músarrindill er eindreginn skóglendis- og láglendisfugl. Reiknuð stofnstærð er aðeins 1.100 pör sem er örugglega verulegt vanmat (Kristinn Haukur Skarphéðinsson o.fl. 2017). Útbreiðslukortið (sjá kort) endurspeglar dreifingu birkikjarrs og þar sem músarrindlar verpa einnig sums staðar í ræktuðum skógi er útbreiðslan á síðari árum líklega vanskráð. Um 18% músarrindla reiknast innan mikilvægra fuglasvæða (sjá töflu).

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 3,5 ár Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir):

Músarrindlastofninn er örugglega >1.000 kynþroska einstaklingar og sterkar vísbendingar eru um að hann hafi vaxið á undanförnum árum. Hann er auk þess það dreifður að líklegt má telja að stofninn sé ekki í hættu (LC).

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Músarrindill var ekki í hættu (LC).

Verndun

Músarrindill er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Válisti

Engin mikilvæg svæði eru skilgreind fyrir músarrindil á Íslandi.

IBA viðmið – IBA criteria:

Engin/none

Töflur

Reiknaður fjöldi músarrindla sem gæti orpið á þeim mikilvægu fuglasvæðum þar sem >1% íslenska stofnsins er að finna – Calculated number of breeding Troglodytes troglodytes within important bird areas with >1% of the Icelandic population.*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (pör) Number (pairs)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Borgarfjörður–Löngufjörur FG-V_10 B 25 2013 2,3  
Vatnajökulsþjóðgarður VOT-N_15 B 11 2013 1,0  
Suðurlandsundirlendi VOT-S_3 B 149 2013 13,7  
Önnur mikilvæg svæði Other important areas   B 13 2013 1,2  
Alls–Total     198   18,1  
*byggt á Náttúrufræðistofnun Íslands, óbirt gögn/unpubl. data

Myndir

Heimildir

Amouret, J., D.A. Barisas, G.T. Hallgrímsson, R.W. Summers og S. Pálsson 2016. Genetic divergence of Troglodytes troglodytes islandicus from other subspecies of Eurasian wren in northwestern Europe. Journal of Avian Biology 47: 26–35.

Bengtson, S.-A. 2004. Músarrindlar í Mývatnssveit: stofnbreytingar og varphættir. Bliki 25: 15–24.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, Borgný Katrínardóttir, Guðmundur A. Guðmundsson og Svenja N.V. Auhage 2016. Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar Nr. 55. 295 s. rafræn útgáfa leiðrétt í nóvember 2017. http://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_55.pdf.

Náttúrufræðistofnun Íslands 2000. Válisti 2: fuglar. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands.

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Músarrindill (Troglodytes troglodytes)

Samantekt á Ensku

The Troglodytes troglodytes population in Iceland is estimated 1,100 pairs, based on measured densities in different habitat types and known and probable distribution. However, this is most likely a gross underestimate. No IBAs are designated for this species.

Icelandic Red list 2018: Least concern (LC) as in 2000.