Rostungur (Odobenus rosmarus)

Útbreiðsla

Útbreiðsla rostungs nær til grunnsævis á hafíssvæðum umhverfis norðurheimskautið en stök dýr flakka víðar. Tvær deilitegundir eru skilgreindar, atlantshafsrostungur (Odobenus rosmarus rosmarus) og kyrrahafsrostungur (Odobenus rosmarus divergens). Báðar tegundir skiptast í nokkra staðbundna stofna.

Stofnfjöldi

Talið er stofn atlantshafsrostungs telji ríflega 25.000 dýr en heimsstofninn var talinn í hundruðum þúsunda fyrir landnám Evrópubúa í N-Ameríku. Rostungsveiðar hafa verið stundaðar um aldir en urðu stórtækar frá því í lok 18. aldar og fram á miðja 20. öld (Nammco 2020). Heildarstofnbreytingar eru lítt þekktar en talið er að framtíð tegundarinnar sé ótrygg vegna þess hversu dýrin eru háð hafís (Lowry 2016). Rostungar sem reglulega heimsækja Ísland koma úr Austur-Grænlandsstofninum en í honum teljast vera færri en 1.000 dýr (Nammco 2020). Sá stofn sem var á Íslandi við landnám er talinn hafa verið við landið um árþúsundir en horfið fyrir 1330 (Keighley o.fl. 2019).

Lífshættir

Rostungsurtur kæpa vanalega 6–7 ára en brimlar verða yfirleitt ekki nægilega þroskaðir til að berjast um urtur fyrr en 15 ára. Mökun fer fram í janúar og febrúar og á sér stað í sjónum. Urtur og brimlar halda tryggð við hvort annað út kæpitímann og brimlarnir verja urturnar fyrir öðrum brimlum, aðallega með því að sýna vígtennurnar. Meðgöngutíminn er tvö ár og nærist kópurinn eingöngu á móðurmjólk fyrstu sex mánuðina. Rostungar eru félagslyndir en kynin eru aðskilin á helsta fæðuöflunartímanum, frá vori til hausts. Urtur, ásamt ungviði og einum forystubrimli mynda hjarðir en aðrir brimlar mynda eigin hjarðir, utan stöku brimla sem fara einförum. Kópurinn fylgir móður sinni áfram í eitt og hálft ár og fer í raun ekki alveg frá móðurhjörðinni fyrr en  2–3 ára gamall

Helsta fæða rostunga eru hryggleysingjar af ýmsu tagi, svo sem skeljar, ormar, sniglar og rækjur en þeir éta einnig eitthvað af fiski. Einstaka rostungar veiða seli og smáhveli en þeir eru jafnframt hræætur og hafa fundist leifar ýmissa dýra í mögum þeirra, svo sem hunda, refa og fugla (Guðmundur Þórðarson og Erlingur Hauksson 2004).

Lýsing

Rostungar eru afar stór dýr, fullorðnir brimlar eru yfirleitt lengri en þrír metrar og vega yfir 1.200 kíló en urturnar eru talsvert minni. Húð fullorðinna dýra er mjög þykk, hrukkótt og með gisnum, stuttum hárum. Háls, bringa og herðar eru mikil um sig en afturpartur mjórri. Framhreifar eru kubbslegir og stuttir en nýtast ekki til gangs, líklega vegna þess hve dýrin eru þung. Höfuð og trýni eru stutt en breið og er trjónan flöt að framan með stuttum og stífum veiðihárum á grönum. Litur dýranna fer eftir aldri, flest eru grágulbrún en brimlar geta fölnað með aldrinum. Húðlitur fullorðinna brimla verður þó rauðleitur ef dýrið hitnar, vegna aukins blóðstreymis út í húð. Kópar fæðast með gráleitan feld en ungir rostungar eru dökkir á lit, næstum svartir. Bæði urtur og brimlar hafa vígtennur og eru þær um 55 cm að lengd á brimlum en 40 cm á urtum.

Válistaflokkun

RE (útdauð á Íslandi)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
RE NA VU

Rostungar af Atlantshafsstofni sem flækjast til Íslands teljast til tegundar á heimsválista.

Forsendur flokkunar

Rostungar af Atlantshafsstofni eru sjaldséð flökkudýr á Íslandi og koma yfirleitt frá Austur-Grænlandi (Nammco 2020). Því er ekki lagt mat á þann stofn á íslenskum válista. Rostunga af þeim stofni sem lifði á Íslandi allt til ársins 1330 er ekki lengur að finna á hafsvæðum innan efnahagslögsögu Íslands (Keighley o.fl. 2019). Tegundin flokkast því sem útdauð á svæðinu (RE) samkvæmt viðmiðum IUCN.

Global position

Rostungar eru í nokkurri hættu (VU) á heimsválista IUCN en eru ekki á válista Evrópu (NA). Tegundin er í viðauka II Bernarsamningsins og skráð í viðauka II á lista CITES yfir alþjóðaverslun með dýraafurðir.

Ógnir

Talið er líklegt að íslenski rostungastofninn hafi verið dáið út vegna ofveiða á fyrstu tveimur til þremur öldunum eftir landnám. Stórtækar veiðar ollu mikilli fækkun heimsstofnsins frá upphafi 19. aldar og fram á miðja 20. öld (Nammco 2020). Hæg viðkoma, það er löng meðganga, seinn þroski og 2–3 ár milli kæpinga hjá urtum, veldur því að fjölgun er of hæg til að koma til móts við fækkunina og því er heimsstofninn mun minni en áður var. Í dag eru helstu ógnir tegundarinnar röskun búsvæða vegna bráðnunar hafíss sem hefur áhrif á fæðuskilyrði og dregur úr tímgun. Mengun af völdum þrávirkra efna og þungmálma, sem safnast upp í efstu fæðuþrepin, gæti jafnframt haft neikvæð áhrif á líkamsástand, lifun og tímgunarárangur rostunga. Rostungar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir ónæði í látrum og hefur aukin truflun af mannavöldum verið nefnd meðal þess sem ógnað gæti rostungum í framtíðinni (Lowry 2016).

Heimildir

European Mammal Assessment team 2007. Odobenus rosmarus. The IUCN Red List of Threatened Species 2007: e.T15106A4494371. [skoðað 24.8.2018]

Guðmundur Þórðarson og Erlingur Hauksson 2004. Rostungur. Í Páll Hersteinsson, ritstj. Íslensk spendýr, bls. 112–115. Reykjavík: JPV.

Keighley, X., S. Pálsson, B.F. Einarsson, A. Petersen, M. Fernández-Coll, P. Jordan, M.T. Olsen og H.J Malmquist 2019. Disappearance of Icelandic Walruses Coincided with Norse Settlement. Molecular Biology and Evolution 36(12): 2656–2667. https://doi.org/10.1093/molbev/msz196 [skoðað 21.4.2021]

Lowry, L. 2016. Odobenus rosmarus. The IUCN Red List of Threatened Species 2016: e.T15106A45228501. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2016-1.RLTS.T15106A45228501.en [skoðað 2.12.2020]

Nammco 2020. Atlantic walrus. https://nammco.no/topics/atlantic-walrus [skoðað 2.12.2020]

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir apríl 2021

Biota

Tegund (Species)
Rostungur (Odobenus rosmarus)

Samantekt á Ensku

Odobenus rosmarus is nowadays a vagrant in Iceland, usually coming from East-Greenland. A special breed of Walrus lived around Iceland when it was settled by humans in the 10th century AD. This population became extinct during he 13th century, probably  due to overhunting. Therefore, the species is listed as Regionally extinct (RE) according to IUCN criteria.