Andarnefja (Hyperoodon ampullatus)

Útbreiðsla

Útbreiðsla andarnefju er bundin við Norður Atlantshaf, frá tempruðum hafsvæðum (40°N) allt norður í heimskautasvæði (72°N). Andarnefjan er djúpsjávarhvalur og hér við land er algengast að sjá hana við landgrunnsbrúnina á sumrin frá apríl og fram í miðjan ágúst. Hún virðist iðulega lenda í vandræðum fari hún of nálægt ströndum og er meðal þeirra hvalategunda sem oftast finnast reknar á fjörur á Íslandi.

Stofnfjöldi

Ekki eru til nýlegar tölur um stærð heildarstofns andarnefju, aðallega vegna skorts á gögnum um köfunarhegðun, sem hefur áhrif á niðurstöður talninga, sérstaklega hjá djúpköfurum. Árið 1995 kom út skýrsla þar sem kom fram að gróflega áætlað væru í Austurstofni Norður-Atlantshafs um 40.000 dýr (NAMMCO 1995), þar af rúmlega 3.000 á íslensku hafsvæði (Gunnlaugsson og Sigurjónsson 1990). Vegna ofangreindra örðugleika liggja ekki fyrir nýlegri nákvæmar tölur um stærð stofnsins, hvorki hér við land né annars staðar í Norður-Atlantshafi.

Andarnefjur voru meðal þeirra hvalategunda sem mikið var veitt af í Norður-Atlantshafi fyrr á öldum, meðal annars á stóru svæði norður af Íslandi (Taylor o.fl. 2008). Í norskri rannsókn frá 1983 kemur fram að Norður Atlantshafsstofninn hafi verið áætlaður um 30.000 dýr árið 1914 en hafi að öllum líkindum verið þrefalt stærri fyrir daga nútíma hvalveiða. Um miðjan 9. áratug síðastliðinnar aldar hafi andarnefjustofninn í Norður-Atlantshafi verið áætlaður 54.000 dýr (Christensen og Ugland 1983). Samkvæmt veiðitölum voru 65.000-80.000 andarnefjur veiddar á Norður Atlantshafssvæðinu á tímabilinu 1850-1970 (Mitchell 1977).

Lífshættir

Lífslengd andarnefja er ekki vel þekkt en elsta aldursgreinda dýrið var 37 ára tarfur. Flestar andarnefjur verða kynþroska átta til tólf ára og er meðgöngutími 12 mánuðir. Kýr mjólka kálfum sínum í eitt ár og flest bendir til þess að burður sé að jafnaði annað hvert ár. Andarnefjur eru yfirleitt í litlum hópum, 3-4 dýr, oftast af sama kyni og aldri. Kýr með kálfum fara stundum saman í hópum. Þær eru forvitnar og nálgast gjarnan báta á reki. Fæðan er aðallega smokkfiskur þó þær éti einnig eitthvað smávegis af fiski. Andarnefjur geta kafað niður á meira en þúsund metra dýpi og eru að jafnaði 40 mínútur í kafi. Aðeins búrhvalir geta kafað svo djúpt en báðar tegundir hafa hólf í höfði með sérstakri gerð af fitu, olíu og bandvef, sem hugsanlega skiptir máli til að þola mikinn þrýsting.

Lýsing

Andarnefjan er næst stærsti tannhvalurinn í Norður Atlantshafi (fyrir utan búrhvalstarfa) og getur tarfurinn orðið meira en níu metrar að lengd og sjö tonn að þyngd. Kvendýrin eru mun minni og ná mest 7-8 metra lengd og 5 tonna þyngd. Megin útlitseinkenni andarnefjunnar er höfuðlagið en ennið er hátt og trýnið framstætt, svolítið eins og á önd. Horn andarnefjunnar er staðsett aftan við miðju baksins, um 30 sm hátt og aftursveigt. Bægslin eru stutt, sporðurinn er samfelldur og engin vik á miðju hans. Fullorðin dýr eru dökk á baki og ljósari að neðanverðu og á andliti. Litur ungra dýra getur verið breytilegur á efri hluta líkamans, allt frá svörtum yfir í brúnan en neðri hlutinn og andlitið er yfirleitt gráhvítur.

Válistaflokkun

DD (gögn vantar)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
DD DD DD

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 17,7 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Ekki hefur verið gerð greining á þróun stofnstærðar andarnefju en ljóst er að stofninn var miklu stærri fyrir tíma nútíma hvalveiða. Vegna þess, ásamt óvissu í stofnmati, er ekki hægt að útiloka að tegundin geti verið í hættu. Því flokkast tegundin sem gögn vantar (DD) við Ísland.

Global position

Andarnefjan flokkast undir (DD) gögn vantar, á Heims- og Evrópulista IUCN. Við Noreg telst tegundin ekki í hættu (LC) og er ekki metin við Grænland (NA).

Ógnir

Andarnefja er talin sérstaklega viðkvæm fyrir hljóðmengun í hafinu  (heræfingar, olíuleit o.fl.) en hugsanleg áhrif þessara þátta á stofn andarnefja er erfitt að meta. Önnur mengun, sem einnig herjar á aðra hvali, er talin geta valdið því að andarnefjur eigi erfitt uppdráttar. Vegna óvissu í stofnmati og líkanagerð er þó ekki hægt að staðfesta slík áhrif.

Myndir

Heimildir

Christensen, I., Ugland, K.I. 1983. The history of exploitation and status of the northeast Atlantic bottlenose whale (Hyperoodon ampullatus). IWC/SC/35/SM 15.

Droplaug Ólafsdóttir og Gísli A. Víkingsson (2004). Andarnefja. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavik, bls. 176-179.

Gunnlaugsson, T. and Sigurjonsson, J. 1990. A note on the problem of false positives in the use natural marking data for abundance estimation. Reports of the International Whaling Commission 12: 143-145.

Mitchell, E. D. 1977. Evidence that the northern bottlenose whale is depleted. Reports of the International Whaling Commission 27: 195-201.

NAMMCO. 1995. Report of the joint meeting of the Scientific Committee working groups on northern bottlenose and killer whales and management procedures. NAMMCO Annual Report 1995, pp 89-99.

Taylor, B.L., Baird, R., Barlow, J., Dawson, S.M., Ford, J., Mead, J.G., Notarbartolo di Sciara, G., Wade, P. & Pitman, R.L. 2008. Hyperoodon ampullatus. The IUCN Red List of Threatened Species 2008: e.T10707A3208523. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2008.RLTS.T10707A3208523.en. Downloaded on 11 May 2018.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir nóvember 2018

Biota

Tegund (Species)
Andarnefja (Hyperoodon ampullatus)

Samantekt á Ensku

Hyperodon ampullatus population size in the North Atlantic is hard to estimate due to it´s extreme diving abilities and long time underwater. The population is is believed to account to at least several tens of thousands but population trends are unknown. However, a severe decline cannot be ruled out and therefore the species is listed as data deficient (DD) according to IUCN criteria.