Hnísa (Phocoena phocoena)

Útbreiðsla

Útbreiðsla hnísu er bundin við tempruð og kaldtempruð svæði norðurhvels jarðar. Hún heldur sig aðallega á grunnsævi og er útbreiðslan því ekki samfelld. Í Norður Atlantshafi hafa verið skilgreindir 14 stofnar og er hnísur að finna við suðausturströnd Bandaríkjanna, að suðurhluta Baffinseyjar í vestri og frá Senegal til Novaya Zemlya í austri. Jafnframt eru hnísur við suðaustur og vesturströnd Grænlands, við Ísland og Færeyjar. Hnísan er eina hvalategundin sem sést reglulega í Eystrasalti. Hún er hér á grunnsævi allt árið umhverfis landið og virðist algengust við ströndina frá síðvetri fram á haust en heldur sig ef til vill fjær landi á veturna.

Stofnfjöldi

Hnísur á landgrunni Íslands teljast einangraður og afmarkaður stofn. Hefðbundnar hvalatalningar ná illa til þessarar tegundar vegna þess hve smávaxin hún er og eins vegna strandlægrar útbreiðslu. Þó má nýta slík gögn til að meta lágmarksstærð stofnsins. Slíkt mat var síðast gert fyrir talningarnar 2007 og var fjöldinn á íslenska landgrunninu þá metinn að lágmarki 43.200 hnísur. Marktæk fækkun mældist í þéttleika hnísa á tímabilinu 1986–2001, en hún stafaði nánast eingöngu af því hversu fá dýr sáust árið 2001. Í næstu talningum (2007) mældist þéttleikinn hins vegar meiri en í þeim fyrri og í síðustu talningum (2016) mældist mesti þéttleiki frá því að talningar hófust (NAMMCO 2018).

Lífshættir

Hnísur verða kynþroska 2-3 ára og tímgast yfirleitt árlega. Burður og mökun er að sumarlagi en líklegast er talið að æxlun eigi sér stað síðsumars og að meðgöngutíminn sé 10-11 mánuðir. Fæða hnísunnar er fjölbreytt og breytileg eftir árstímum, mest ýmiskonar fiskur en einnig smokkfiskar og smærri hryggleysingjar. Hnísan er yfirleitt ein á ferð eða í smærri hópum. Hún er minna sýnileg en til dæmis höfrungar og laðast ekki að bátum.

Lýsing

Hnísan er með minnstu hvalategundum í heiminum, rétt rúmlega einn og hálfur metri að lengd og 50-70 kg að þyngd. Kvendýrin eru bæði stærri og þyngri en karldýrin sem er óalgengt meðal tannhvala. Liturinn er grár, dekkri á baki og bægsli en ljósari á kvið og neðri kjálka. Dökk rák liggur frá bægslum að augum. Vaxtarlagið er kubbslegt, hornið er meðalstórt og beint, staðsett við miðju líkamans. Bægslin eru smá og ávöl en sporblaðkan er sveigð og með rauf í miðju. Blástursopið er eitt, höfuðið er lítið og trýnið stutt.

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC VU LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 8,3 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Samanlagt gefa fyrirliggjandi gögn ekki tilefni til ályktana um breytingar á fjölda hnísa við landið undanfarna áratugi. Engar vísbendingar eru um fækkun hér við land þrátt fyrir umtalsverðar hjáveiðar í fiskveiðum. Hnísur flokkast því sem ekki í hættu (LC) við Ísland.

Global position

Hnísan er á válista (VU) í Evrópu en ekki í hættu (LC) á heimslista IUCN. Á grænlenska válistanum er hnísan flokkuð sem DD (gögn vantar) en tegundin flokkast sem ekki í hættu (LC) á þeim norska. Hnísa er skráð í viðauka II á CITES listanum um alþjóðaverslun með dýraafurðir. Hún er jafnframt skráð í viðauka II og IV í Habitat Directive.

Ógnir

Algengt er að hnísur veiðist í fiskinet og eru því afföll af völdum netadauða mikil víðast hvar. Hér við land drukkna hnísur einkum í þorskanetum og grásleppunetum. Umfang þessa netadauða er óljóst en er talið nema að minnsta kost 2.000 dýrum árlega. Aukin mengun á strandsvæðum í Norður Atlantshafi, þar með talin hljóðmengun, er talin geta haft neikvæð áhrif á viðgang tegundarinnar en þessi áhrif eru óljós. Um 2.500 hnísur eru veiddar árlega við Grænland.

Heimildir

Droplaug Ólafsdóttir og Gísli A. Víkingsson (2004). Hnísa. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavik, bls. 150–153.

Droplaug Ólafsdóttir, Gísli A. Víkingsson, Sverrir D. Halldórsson og Jóhann Sigurjónsson (2003). Growth and reproduction in harbour porpoises (Phocoena phocoena) in Icelandic waters. NAMMCO Sci Publ 5:195

Gilles A, Gunnlaugsson Th, Mikkelsen B  et al. (2011). Harbour porpoise Phocoena phocoena  summer abundance in Icelandic and Faroese waters, based on aerial surveys in 2007 and 2010. NAMMCO/SC/18/AESP/11.

Gísli A. Víkingsson, Droplaug Ólafsdóttir og Jóhann Sigurjónsson J (2003). Geographical and seasonal variation in the diet of harbour porpoises (Phocoena phocoena) in Icelandic coastal water. NAMMCO Sci Publ 5:243–270.

Hammond, P.S., Bearzi, G., Bjørge, A., Forney, K., Karczmarski, L., Kasuya, T., Perrin, W.F., Scott, M.D., Wang, J.Y., Wells, R.S. & Wilson, B. (2008). Phocoena phocoena. The IUCN Red List of Threatened Species 2008: e.T17027A6734992. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2008.RLTS.T17027A6734992.en

NAMMCO (North Atlantic Marine Mammal Commission) (2018) NAMMCO Scientific Committee report of the Working Group on abundance estimates. Copenhagen May 2018. North Atlantic Marine Mammal Commission, Tromsö.  38 bls. https://nammco.no/wp-content/uploads/2018/09/report_aewg_2018_final.pdf

Ólafur K. Pálsson, Þorvaldur Gunnlaugsson og Droplaug Ólafsdóttir 2015. Meðafli sjófugla og sjávarspendýra í fiskveiðum á Íslandsmiðum. Hafrannsóknir nr. 178. Hafrannsóknastofnun, Reykjavík 2015, 21 bls.  

Pike, D.G., Paxton, C.G.M., Gunnlaugsson, Th. and Víkingsson, G.A. (2009). Trends in the distribution and abundance of cetaceans from aerial surveys in Icelandic coastal waters, 1986-2001. NAMMCO Sci. Publ. 7:117-142.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018

Biota

Tegund (Species)
Hnísa (Phocoena phocoena)

Samantekt á Ensku

Phocoena phocoena population in Icelandic waters is estimated at least 43,000 individuals. Significant decline was observed in the population in the years 1986–2001. This apparent decline was mainly attributable to low densities in 2001, but since then higher densities have been observed including the highest reported density in the last survey (2016). Therefore the species is listed as least concern (LC) according to IUCN criteria.