Hrefna (Balaenoptera acutorostrata)

Útbreiðsla

Hrefnan er útbreidd í öllum heimshöfum og víða algengasti skíðishvalurinn á landgrunnsvæðum. Í Norður Atlantshafi sést hún á sumrin allt norður að Baffinflóa og norður fyrir Bjarnareyju og á veturna allt suður til Mexíkóflóa og Miðjarðarhafs. Á sumrin er mest af hrefnum á landgrunnssvæðum Noregs, Íslands og Grænlands . Farhegðun hrefnu er ekki vel þekkt en talið er að meginhluti dýranna haldi til í sunnanverðu Norður Atlantshafi á veturna þótt einhverjar hrefnur sjáist við Ísland allt árið. 

Stofnfjöldi

Hrefnur við Ísland tilheyra Mið-Norður Atlantshafsstofni sem telur að lágmarki 50 þúsund dýr. Hrun sandsílisstofnsins sunnan og vestan við Ísland ásamt tilfærsla á sumarútbreiðslu loðnu norðanlands eru líklega helstu ástæður þess að hrefnu fækkaði mikið við strendur landsins milli talninganna 2001 og 2007. Ekki eru þó neinar vísbendingar um fækkun á stofnsvæðinu sem heild þótt áðurnefndar tilfærslur hafi orðið á útbreiðslu innan þess undanfarna áratugi, t.d. fækkun hrefnu á landgrunssvæðinu við Ísland frá aldamótum og fjölgun við Jan Mayen (Gísli A. Víkingsson o.fl. 2015, IWC 2018).

Lífshættir

Hrefnur geta orðið 50 ára gamlar en verða kynþroska um og eftir fimm ára aldur. Æxlunarhringur hrefnunnar er aðeins eitt ár, ólíkt öðrum reyðarhvölum þar sem heildartíminn er tvö ár. Hrefnan makast fljótlega eftir burð og er samtímis þunguð og með kálf á spena en meðgöngutíminn er 10 mánuðir. Fæða hrefnunnar er afar fjölbreytt, allt frá smásæjum svifkrabbadýrum til stórra fiska eins og þorsks.

Lýsing

Hrefnan er minnsti reyðarhvalurinn og verður yfirleitt ekki lengri en 10 m og 8-9 tonn að þyngd, kýrnar heldur stærri en tarfarnir, eins og hjá öðrum reyðarhvölum. Höfuðið er stutt og frammjótt og með lágum kili eftir endilöngu en aftan við hann eru blástursholurnar tvær. Skíðin eru 250-350 talsins og gulhvít að lit. Hrefnan er svört eða svargrá á baki, gráleit á hliðum og hvít á kviði en bægslin eru svört með áberandi hvítu bandi. Blástur er lítt eða ekki sýnilegur nema við sérstök skilyrði. Hrefnan er oftast nær ein á ferð, er lítt áberandi í sjónum og lyftir ekki sporði við köfun en getur stokkið talsvert hátt upp úr sjónum þegar hún kemur úr köfun. Hrefnan er forvitin og á það til að stinga trjónunni upp úr sjónum eða velta sér í sjónum umhverfis báta.

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 22 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Ekki eru neinar vísbendingar um fækkun á þeim stofni sem hrefnur við Ísland tilheyra þótt umtalsverðar tilfærslur hafi orðið innan stofnsvæðisins undanfarna áratugi, t.d. fækkun hrefnu á landgrunnssvæðinu við Íslands frá aldamótum (Gísli A. Víkingsson o.fl. 2015, IWC 2018). Hrefna er því  ekki talin í hættu (LC) samkvæmt skilgreiningum IUCN.

Global position

Hrefna flokkast ekki í hættu (LC) á heimslista og Evrópulista IUCN svo og á svæðislistum Noregs og Grænlands.

Hrefnan er skráð á viðauka I á lista CITES um verslun með dýraafurðir.

Ógnir

Hrun sandsílisstofnsins sunnan og vestan við Ísland ásamt tilfærsla á sumarútbreiðslu loðnu norðanlands eru líklega helstu ástæður þess að hrefnu fækkaði mikið við strendur landsins milli talninganna 2001 og 2007. Þessar fisktegundir voru uppistaða í sumarfæðu hrefnu hér við land og virðist hér vera um að ræða viðbrögð hrefnunnar við breytingum á fæðuframboði sem tengjast ef til vill hlýnun sjávar. Helstu ógnir sem steðja að hrefnum í Norður Atlantshafi eru þættir sem almennt ógna lífríkinu, svo sem efnamengun, hljóðmengun, súrnun sjávar, skipaumferð og hnattræn hlýnun. Áhrif þessara þátta á hrefnustofninn til lengri eða skemmri tíma eru þó illa þekkt.

Lagaleg staða

Nýting hrefnu við Ísland byggir á lögum nr. 26/1949 um hvalveiðar með síðari breytingum. Hvalveiðileyfi eru gefin út af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggir á úttektum vísindanefnda Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður Atlantshafs Sjávarspendýraráðsins (NAMMCO). Úttektirnar byggja á stofnlíkani (RMP) sem þróað var af vísindanefnd IWC með varúðarnálgun og langtíma sjálfbærni sem meginmarkmið. 

Myndir

Heimildir

Gísli A. Víkingsson (2004). Hrefna. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavík, bls. 218-223. 

Gísli A. Víkingsson, Bjarki Þ. Elvarsson, Droplaug Ólafsdottir, Jóhann Sigurjónsson, Chosson, V., og Galan, A. (2014). Recent changes in the diet composition of common minke whales (Balaenoptera acutorostrata) in Icelandic waters. – A consequence of climate change? Mar. Biol. Res. 10, 138–152.

Gísli A. Víkingsson, Pike D, Schleimer A, Héðinn Valdimarsson, Þorvaldur Gunnlaugsson T, Silva T, Bjarki Þ. Elvarsson, Mikkelsen B, Öien N, Desportes G, Valur Bogason, Hammond PS (2015) Distribution, abundance and feeding ecology of baleen whales in Icelandic waters: have recent environmental changes had an effect ? Front Ecol Evol 3:1–18

IWC 2018. Report of the Sub-Committee on the Revised Management Procedure. Journal of Cetacean Research and Management vol. 19 (SUPPL).

Species account by IUCN SSC Cetacean Specialist Group; regional assessment by European Mammal Assessment team. 2007. Balaenoptera acutorostrata. The IUCN Red List of Threatened Species 2007: e.T2474A9443827. Downloaded on 21 August 2018.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir nóvember 2018

Biota

Tegund (Species)
Hrefna (Balaenoptera acutorostrata)

Samantekt á Ensku

Balaenoptera acutorostrata population of the North-Atlantic is estimated at least 50,000 individuals. There are no signs of a population decline although changes in distribution have been observed in the past few decades. The population is therefore regarded as least concern (LC) according to IUCN criteria.