Langreyður (Balaenoptera physalus)

Útbreiðsla

Langreyður er annað stærsta dýr jarðar á eftir steyðireyði. Hún er útbreidd um öll heimshöf og sést bæði á heimskautasvæðum og í hitabeltinu þó hún sé algengust í tempraða og kaldtempraða beltinu. Langreyður er almennt talin farhvalur sem ferðast í átt að heimskautum á vorin og til baka á hlýrri svæða á haustin. Hafið umhverfis Ísland eru einar helstu fæðuslóðir langreyðar í Norður Atlantshafi. Þótt tegundin finnist allt í kringum landið að sumarlagi er þéttleikinn mestur við landgrunnsbrúnina vestan og suðvestan við landið. Langreyðar hafa sést í öllum mánuðum við Ísland en eru algengastar á tímabilinu maí-september.

Stofnfjöldi

Langreyður er algengasta tegund stórhvela á íslenskum og aðlægum hafsvæðum (Mið-Norður-Atlantshafsstofn, A-Grænlands-Íslandsstofn). Langreyðar við A-Grænland, Ísland og Jan Mayen eru taldar tilheyra sama stofni. Eins og aðrar tegundir stórhvala var langreyður ofveidd við Ísland á tímabilinu 1883–1915 (norsku landstöðvarnar) og hafði fækkað verulega þegar hvalveiðibann var samþykkt á Alþingi árið 1915. Þótt banninu hafi verið aflétt árið 1928 voru veiðar á langreyði mjög takmarkaðar fram til 1948 er Hvalstöðin í Hvalfirði tók til starfa. Þá hafði stofninn náð að stækkað umtalsvert ef marka má veiðigögn en á tímabilinu 1948–1985 var meðalveiðin 234 langreyðar án þess að marktæk minnkun kæmi fram í afla á sóknareiningu. Frá því að skipulegar hvalatalningar hófust árið 1987 hefur langreyði fjölgað jafnt og þétt í hafinu kringum Ísland (Mið-Norður-Atlantshaf) og var fjöldinn metinn um 40 þúsund dýr í síðustu talningu sem fram fór árið 2015 (Pike o.fl. 2018). Samkvæmt alþjóðlegum úttektum á stofnþróun á 20. öld er stofninn nálægt sögulegu hámarki (IWC 2017, NAMMCO 2017).

Lífshættir

Við Ísland og annars staðar á Norður-Atlantshafi er fengitími langreyðar í desember og burður í nóvember eftir 11 mánaða meðgöngu. Kálfurinn er á spena í um 6 mánuði og fylgir móðurinni í fyrsta fari á fæðuslóð áður en hann er vaninn undan. Hann er þá um 11 m langur og 10-15 tonn og hefur því næstum tvöfaldað lengd sína og allt að áttfaldað þyngd sína frá fæðingu. Kýrnar bera að jafnaði annað hvert ár. Breytileiki er í aldri við kynþroska, hér við land verða langreyðartarfar kynþroska 17,7-18,3 m langir og kýrnar 18-18,6 m langar.

Langreyður étur mest sviflæg krabbadýr og safnar miklum forða yfir sumarið en nærist lítið á veturna. Hún er hraðsyndari en flestar aðrar tegundir stórhvala og er algengur ferðahraði 5-10 km/klst á fartíma. Langreyðar eru oftast einar eða í litlum hópum. Þær mynda þó stundum stærri hópa tímabundið, einkum þar sem fæða er ríkuleg.

Lýsing

Langreyður er næst stærsta dýr jarðar en aðeins hin náskylda steypireyður er stærri. Til eru dæmi um blendinga sem eru afkvæmi þessara tveggja tegunda. Langreyðar geta náð allt að 26 m lengd á suðurhveli en líkt og meðal annarra skíðishvala eru langreyðar á norðurhveli um 10-20% styttri. Milli blástursopa og trjónu er lágur kjölur ofan á miðju höfðinu. Flestir einstaklingar hafa litamynstur í misdökkum, gráum tónum aftan og ofan við augu og hefur þessi breytileiki nýst við greiningu einstaklinga. Litur neðri kjálka og skíða er ósamhverfur sem er einsdæmi meðal hvala.

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC NT VU

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 26 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Stofnstærð (Mið-Norður-Atlantshafsstofn) var metin um 40 þúsund dýr í síðustu talningum (2015). Jöfn og mikil fjölgun hefur verið í stofninum frá því reglulegar talningar hófust árið 1987 (Pike o.fl. 2016, Nammco 2017).

Global position

Langreyður flokkast sem tegund í útrýmingarhættu (EN) á heimslista og í nokkurri hættu (NT) á Evrópulista IUCN en ekki í hættu (LC) á svæðislistum Grænlands og Noregs. Langreyður fellur undir tímabundið bann Alþjóðahvalveiðiráðsins við hvalveiðum í atvinnuskyni. Bannið tók gildi árið 1986 og átti upphaflega að standa í fjögur ár en hefur ekki verið aflétt. Íslendingar eru ein þeirra þjóða sem hvorki er bundin af því banni né beintengdu banni CITES um verslun með afurðir en langreyður er skráð á viðauka I á þeim lista. Staða langreyðar á Norðurhveli jarðar er gjörólík stöðu deilitegundarinnar á Suðurhveli sem á enn langt í að ná fyrri stærð. Slæmt ástand langreyðarstofna Suðurhvels er ástæða þess að tegundin er metin í útrýmingarhættu (EN) á alheimslista IUCN.

Ógnir

Talið er að hvalveiðar á seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar hafi gengið nærri langreyðarstofnum Norður-Atlantshafs og síðar um víða veröld. Nokkuð er um að langreyðar drepist vegna árekstra við skip en óalgengt að tegundin flækist í veiðarfærum enda skarast útbreiðsla tegundarinnar lítið við þau veiðarfæri sem helst ánetja sjávarspendýr. Helstu ógnir sem steðja að langreyðum í Norður Atlantshafi eru þættir sem almennt ógna lífríkinu s.s. efnamengun, hljóðmengun, súrnun sjávar, skipaumferð og hnattræn hlýnun. Áhrif þessara þátta á langreyðar til lengri eða skemmri tíma eru þó illa þekkt.

Verndun

Hvalveiðibannið á Íslandi 1915 leiddi til þess að langreyður var nánast friðuð frá veiðum fram til 1948. Veiðar sem stundaðar eru í dag af Íslendingum og Grænlendingum eru sjálfbærar samkvæmt alþjóðlegum vísindalegum úttektum og geta ekki talist ógna stofninum. Nýting langreyðar við Ísland byggir á lögum nr. 26/1949 um hvalveiðar með síðari breytingum. Hvalveiðileyfi eru gefin út af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar. Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar byggir á úttektum vísindanefnda Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og Norður Atlantshafs Sjávarspendýraráðsins (NAMMCO). Úttektirnar byggja á stofnlíkani (RMP) sem þróað var af vísindanefnd IWC með varúðarnálgun og langtíma sjálfbærni sem meginmarkmið. Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum (nr. 64/1994) ná ekki til hvala.

Heimildir

Fin whale. (2018). https://nammco.no/topics/fin-whale/#1478699758629-7da126c3-48a6. [sótt 21.08. 2018]Gísli A. Víkingsson (2004). Langreyður. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavík, bls. 204-211.

Reilly, S.B., Bannister, J.L., Best, P.B., Brown, M., Brownell Jr., R.L., Butterworth, D.S., Clapham, P.J.,Cooke, J., Donovan, G.P., Urbán, J. & Zerbini, A.N. 2013. Balaenoptera physalus. The IUCN Red List of Threatened Species 2013: e.T2478A44210520. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2013-1.RLTS.T2478A44210520.en

Pike DG, Gunnlaugsson T, Mikkelsen B, Víkingsson GA (2016) Estimates of the abundance of fin whales (Balaenoptera physalus) from the NASS Icelandic and Faroese ship surveys conducted in 2015. Int Whal Comm SC/66b/RMP1:19 pp

Víkingsson GA, Pike DG, Desportes G, Öien N, Gunnlaugsson T, Bloch D (2009) Distribution and abundance of fin whales (Balaenoptera physalus) in the Northeast and Central Atlantic as inferred from the North Atlantic Sightings Surveys 1987-2001. NAMMCO Sci Publ 7:49–72

Víkingsson G, Pike D, Schleimer A, Valdimarsson H, Gunnlaugsson T, Silva T, Elvarsson B, Mikkelsen B, Öien N, Desportes G, Bogason V, Hammond PS (2015) Distribution, abundance and feeding ecology of baleen whales in Icelandic waters: have recent environmental changes had an effect ? Front Ecol Evol 3:1–18

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018

Biota

Tegund (Species)
Langreyður (Balaenoptera physalus)

Samantekt á Ensku

Balaenoptera physalus population of the North-Atlantic is estimated to be 40.000 individuals and population growth has been positive since counting began in the late 1980´s. There is no sign of a decline and therefore the species is listed as least concern (LC) according to IUCN criteria.