Leiftur (Lagenorhynchus acutus)

Útbreiðsla

Útbreiðsla leifturs er að mestu bundin við kaldtempruð og tempruð svæði Norður Atlantshafs. Norðurmörk útbreiðslunnar í Mið-Norður Atlantshafi liggja um íslensk hafsvæði og er tegundin algeng við og utan við landgrunnsbrúnir einkum í syðri hluta landhelginnar. Árstíðabundið far er talið tengjast breytingum á fæðuframboði og er mismunandi eftir hafsvæðum. Leiftur heldur sig aðallega á úthafinu og er algengasta höfrungategundin við Færeyjar. 

Stofnfjöldi

Leiftur er talsvert algengur höfrungur á útbreiðslusvæði sínu, hann er hraðsyndur og fer víða. Ekki hefur verið sýnt fram á aðskilnað stofna í Norðaustur Atlantshafi þar sem heildarfjöldinn er talinn vera að minnsta kosti 200 þúsund. Stofnmat byggir á talningum NASS (North Atlantic Sighting Surveys) á svo kölluðu Mið-Norður Atlantshafssvæði sem nær frá austurströnd Grænlands um Ísland og austur fyrir Færeyjar. Samkvæmt nýjustu talningum er heildarfjöldinn á því svæði um 130 þúsund dýr og engin merki eru um fækkun (Pike o.fl. in press).

Lífshættir

Leiftur getur orðið að minnsta kosti 27 ára gamall en breytilegt er hvenær dýrin verða kynþroska, allt frá 6 ára hjá kúm en 7 ára hjá törfum. Meðgöngutími er um 11 mánuðir en flestir kálfar fæðast í júní-júlí og eru á spena í eitt og hálft ár. Leiftrar fara saman í hópum, yfirleitt 20 saman en geta verið allt að hundrað dýr. Stundum sjást þeir í för með marsvínum (grindhvölum) eða jafnvel stórhvelum á borð við hnúfubak. Fæðuval leifturs er ýmiskonar fiskur, svo sem síld, makríll og ýmsir þorskfiskar.

Lýsing

Leiftur er smávaxinn höfrungur, yfirleitt ekki meira en þrír metrar að lengd, með stutt trýni og stórt aftursveigt horn. Litamynstrið er vel afmarkað, bakið er svart og nær svarti liturinn alveg fram á trjónu. Hliðarnar eru gráar með hvítum ílöngum bletti og þar fyrir aftan er gulur aflangur blettur. Kviður og neðri kjálki er hvítur en bægsli og sporblaðka eru svört.

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 12,7 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Engar vísbendingar eru um fækkun í stofninum og flokkast hann því sem ekki í hættu (LC).

Global position

Tegundin flokkast ekki í hættu (LC) á Heimslista IUCN, Evrópulista IUCN og svæðislista Noregs. Við Grænland var tegundin ekki metin (NA).

Heimildir

Gísli A. Víkingsson og Droplaug Ólafsdóttir (2004). Leiftur. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavík, bls. 158-159.

Hammond, P.S., Bearzi, G., Bjørge, A., Forney, K., Karczmarski, L., Kasuya, T., Perrin, W.F., Scott, M.D., Wang, J.Y., Wells, R.S. & Wilson, B. 2008. Lagenorhynchus acutus. The IUCN Red List of Threatened Species 2008: e.T11141A3255721. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2008.RLTS.T11141A3255721.en. Downloaded on 09 May 2018

Pike DG., Gunnlaugsson T. and Víkingsson, G. (in press) Icelandic aerial survey 2016: Survey report and estimated abundance for minke whales, harbour porpoises and white-beaked dolphins.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir nóvember 2018

Biota

Tegund (Species)
Leiftur (Lagenorhynchus acutus)

Samantekt á Ensku

Lagenorhynchus acutus population in Icelandic waters belongs to the North-Atlantic population of approximately 200,000 individuals. There are no trends or indications of decline during the past three generations and therefore the species is listed as least concern according to IUCN criteria.