Marsvín (Globicephala melas)

Útbreiðsla

Marsvín eða grindhvalur er útbreiddur og algengur tannhvalur í tempruðum og kaldtempruðum svæðum Norður Atlantshafs en önnur deilitegund finnst á suðurhveli jarðar. Marsvínið er algengt í djúpsjónum við Ísland, einkum sunnan og vestan við landið.

Stofnfjöldi

Hvalatalningar NASS (North Atlantic Sighting Surveys) hafa gegnum árin náð yfir misstóran hluta af útbreiðslusvæði marsvínsins sem skýrir sveiflur í niðurstöðum þeirra. Heildar Norður-Atlantshafsstofninn var metinn vel yfir 700.000 dýr í viðamiklum talningum árið 1989 en hefur ekki verið metinn með svo áreiðanlegum hætti síðan. Ljóst er þó að marsvínastofninn er stór og ekki er að sjá neina tilhneigingu til fækkunar eða fjölgunar (Pike o.fl. 2018).

Lífshættir

Talsverður kynjamunur er á ævilengd marsvína, kýrnar verða allt að 59 ára gamlar en tarfarnir 46 ára. Kýr verða kynþroska að jafnaði tæplega 9 ára og geta liðið fimm ár á milli þess sem þær bera. Tarfar verða kynþroska seinna og makast jafnvel ekki fyrr en 18 ára. Marsvín fara saman í hjörðum sem oftast samanstanda af fullorðnum dýrum og kálfum sem skyld eru innbyrðis. Ekki er óalgengt að slíkar hjarðir sláist í för með öðrum hvölum, til dæmis höfrungum, langreyðum og háhyrningum. Einnig er þekkt að grindhvalir syndi í hópum upp á grynningar eða jafnvel í strand en ástæða slíkrar hegðunar er ekki þekkt. Helsta fæða marsvína er smokkfiskur og fylgir útbreiðsla þeirra farleiðum beitusmokks sem gengur upp að grunnsævi síðla sumars.

Lýsing

Marsvín er meðalstór tannhvalur. Lengd kúa er um fimm metrar en tarfa um sex metrar að meðaltali. Búkurinn er sívalur, þykkastur fremst en mjókkar aftur á sporðinn. Höfuðið er stutt og kúpt og trjónan stutt. Hornið er staðsett framan við miðju dýrsins, það er aftursveigt með ávalar línur, tiltölulega langt en miðlungshátt. Litur fullorðinna dýra er svartur eða dökkbrúnn en hvítur blettur er á bringu fyrir framan bægslin. Sum dýr hafa auk þess hvíta skugga aftan við augun og jafnvel söðullaga blett fyrir aftan hornið. 

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC DD LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 24 ár. Tímabil sem mat miðast við eru 3 kynslóðir.

Ekki leikur vafi á stofngerð marsvína á hafsvæðinu við Ísland, Grænland og Noreg og engar vísbendingar eru um fækkun í stofninum á síðastliðnum 72 árum (Pike o.fl. 2018). Því flokkast tegundin sem ekki í hættu (LC) fyrir íslenska hafsvæðið.

Global position

Marsvín er flokkað sem LC (ekki í hættu) á heimslista og DD (vantar gögn) á Evrópulista IUCN, en ekki í hættu (LC) á svæðislistum Grænlands og Noregs. Nokkur óvissa ríkir um flokkunarfræði marsvína á sumum svæðum og mögulega er um tvær eða fleiri tegundir að ræða og möguleiki á að einhver þeirra (þó ekki í Norðaustur Atlantshafi) muni lenda í hættuflokki. Þess vegna er tegundin flokkuð sem DD á heims- og Evrópuválista IUCN.

Ógnir

Hjáveiðar við makrílveiðar og samkeppni um bráð (smokkfisk) við manninn eru nefndar meðal þess sem ógnað gæti tilvist tegundarinnar. Jafnframt hafa mælst talsvert há gildi eiturefna og plast fundist í meltingarvegi strandaðra marsvína. Marsvín nota hljóðmerki til samskipta og gæti hljóðmengun í hafinu hugsanlega haft neikvæð áhrif á lífslíkur dýranna (Taylor o.fl. 2008).

Heimildir

Droplaug Ólafsdóttir  og Gísli A. Víkingsson (2004). Marsvín. Í: Páll Hersteinsson (ritstj.) Íslensk spendýr. Vaka-Helgafell, Reykjavík, bls. 172-175.

Pike, D.G., Gunnlaugsson, Th., Desportes, G., Mikkelsen B, Víkingsson, G.A., Bloch, D. (2018) Estimates of the relative abundance of long-finned pilot whales (Globicephala melas) in the Northeast Atlantic from 1987 to 2015 indicate no long-term trends. NAMMCO Sci Publ In press.

Taylor, B.L., Baird, R., Barlow, J., Dawson, S.M., Ford, J., Mead, J.G., Notarbartolo di Sciara, G., Wade, P. & Pitman, R.L. 2008. Globicephala melas. The IUCN Red List of Threatened Species 2008: e.T9250A12975001. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2008.RLTS.T9250A12975001.en. Downloaded on 11 May 2018.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir nóvember 2018

Biota

Tegund (Species)
Marsvín (Globicephala melas)

Samantekt á Ensku

Globicephala melas population of the North Atlantic oceans is believed to be hundreds of thousands individuals. There is no indication of a decline or threats for the species and therefore it is declared as least concern (LC) in Icelandic waters according to IUCN criteria.