Steypireyður (Balaenoptera musculus)

Útbreiðsla

Steypireyður er útbreidd um öll úthafssvæði nema umhverfis Norðurheimskautið og í Miðjarðarhafi. Hún er farhvalur og heldur sig nálægt ísröndinni á sumrin, bæði á Suður- og Norðurhveli, en dvelur í hlýrri sjó að vetrum. Steypireyður sést við Íslandsstrendur að sumarlagi, yfirleitt frá maí til október. Oftast sjást dýrin vestur af landinu en einnig út af Suðvestur- og Norðausturlandi.

Stofnfjöldi

Steypireyður er flokkuð í nokkra aðskilda stofna sem flestir eru mun minni en fyrir tíma ofveiða á 19. og 20. öld. Sá stofn sem er við Ísland er bundinn við Norður-Atlantshaf og sé miðað við sama stofnsvæði og annarra reyðarhvala á Íslandi (Mið Norður-Atlantshaf), er stærð þessa stofns líklega 1-2 þúsund dýr. Þekkt eru allmörg dæmi um kynblendinga, þ.e. afkvæmi steypireyðar og langreyðar (B. physalus).

Lífshættir

Fæða steypireyðar er svo til eingöngu sviflæg krabbadýr, aðallega ljósáta. Fengitími er á veturna og er algengast að kýrnar beri um hávetur. Meðgangan er talin vera 10-11 mánuðir og er kálfurinn um 7 metra langur og 3 tonn að þyngd við burð. Mjólkin er mjög næringarrík en kálfar eru á spena í sjö mánuði. Steypireyður verður kynþroska um 10 ára og talið er að kýrnar beri að jafnaði annað eða þriðja hvert ár.

Lýsing

Steypireyður er stærsta dýrategund jarðar og getur orðið um 30 metra löng og vegið 190 tonn. Hún er fremur grannvaxin og straumlínulaga, með hlutfallslega smá bægsli en höfuðstór. Ofan á höfðinu er upphækkun um blástursholur, trjónan er ávöl og hlutfallslega breiðari en á öðrum skíðishvölum. Liturinn er flikróttur, að grunni til blágrár nema neðanverð bægslin, þau eru hvít. Einstaklingar eru misdökkir og má greina þá í sundur á litamynstri. 

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU EN EN

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 31 ár. Fjöldi steypireyða í Norður Atlantshafi er að öllum líkindum meiri í dag en var fyrir 3 kynslóðum (93 árum), þótt hann sé enn talsvert minni en við upphaf hvalveiða. Stofnstærð er metin með beinum athugunum og tölfræðilegri úrvinnslu á niðurstöðum talninga sem hafa farið fram með reglubundnum hætti frá 1986. Þrátt fyrir að fjölgað hafi í stofninum er óvíst hvort viðkoma sé nægilega hröð til að vega á móti afleiðingum ofveiða fyrr á tímum.

Um er að ræða mjög lítinn stofn, 1-2.000 dýr og fjöldi kynþroska einstaklinga <1.000 dýr. Því flokkast steypireyður sem tegund í nokkurri hættu (VU D1) samkvæmt viðmiðum IUCN.

Global position

Flestir steypireyðarstofnar eru taldir mun minni en var fyrir tíma ofveiða 19. og 20. aldar. Tegundin er metin í útrýmingarhættu (EN) í Evrópu og á heimsvísu. Þrátt fyrir fjölgun frá friðun 1966 er talið er heimsstofninn sé aðeins um 3-11% af því sem hann var fyrir tíma ofveiða. Tegundin er í viðauka I á lista CITES um alþjóðaviðskipti með hvalaafurðir. 

Ógnir

Ofveiði var helsta ástæða fækkunar steypireyða fram að friðun fyrir ríflega hálfri öld. Ekki er vitað um neinar aðrar beinar ógnir sem herja á dýrin. Eini náttúrulegi afræninginn er háhyrningur (Orcinus orca) en þeir eru ekki taldir hafa áhrif á stofnstærð steypireyða. Árekstrar við skip, hávaði af þeirra völdum og efnamengun gætu haft neikvæð áhrif á steypireyði eins og önnur stórhveli. Steypireyður er e.t.v. sérstaklega viðkvæm vegna hægrar viðkomu. Dýrin verða seint kynþroska, meðganga og uppeldi kálfa tekur langan tíma og geta liðið nokkur ár milli þess sem hver kýr ber kálfi.

Verndun

Fjölgun hefur verið í flestum stofnum steypireyða frá friðun en tegundin þarf mikið rými og svigrúm. Viðkoma er afar hæg og takmarkandi þættir ekki nægilega vel þekktir til að hægt sé að efla nýliðun eða draga úr dánartíðni. Vöktun og verndun á alþjóðavísu er nauðsynleg til að fylgjast með afdrifum tegundarinnar.

Myndir

Heimildir

Gísli A. Víkingsson (2004). Steypireyður. Í: Íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson). JPV, Reykjavík. Bls. 200-203.

Pike DG, Víkingsson GA, Gunnlaugsson T, Øien N (2009) A note on the distribution and abundance of blue whales (Balaenoptera musculus) in the Central and Northeast North Atlantic. NAMMCO Sci Publ 7:19–29. 

Reilly, S.B., Bannister, J.L., Best, P.B., Brown, M., Brownell Jr., R.L., Butterworth, D.S., Clapham, P.J., Cooke, J., Donovan, G.P., Urbán, J. & Zerbini, A.N. 2008. Balaenoptera musculus. The IUCN Red List of Threatened Species 2008: e.T2477A9447146. http://dx.doi.org/10.2305/IUCN.UK.2008.RLTS.T2477A9447146.en. Downloaded on 12 October 2018.

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir október 2018

Biota

Tegund (Species)
Steypireyður (Balaenoptera musculus)

Samantekt á Ensku

Balaenoptera musculus population in Icelandic and adjacent waters (Central North-Atlantic ocean) is estimated 1-2,000 individuals. Despite an increase during the last three generations (93 years), the population is still critically small and recruitment rate is slow. In addition to a small population, mature individuals are less than 1.000, which corresponds to the IUCN criteria of VU D1. The species is listed in Appendix I of CITES and Appendix II of CMS.