Engjasnigill (Deroceras agreste)

Útbreiðsla

Heldur norðræn tegund. Norðanverð Evrópa og Asía og í fjalllendi sunnar í álfunum.

Ísland: Láglendi í öllum landshlutum, en annars er útbreiðslan illa kortlögð á Íslandi en allt bendir til að hann sé á láglendi um land allt.

Lífshættir

Engjasnigill er rakasækinn eins og allir aðrir hans líkar. Hann má finna víðast hvar þar sem hann kemst í nægan raka, t.d. í mýrlendi og miklu gróðurþykkni sem heldur rakanum vel, eins og grasflóki í fuglabyggðum. Á engjum og í frjósömu raklendu beitilandi. Hann leynist gjarnan undir steinum og öðru lauslegu þegar þurrt er í veðri en skríður fram þegar blotnar um eftir úrkomu. Engjasnigill lifir á plöntum og plöntuleifum.

Almennt

Sniglar af ættkvíslinni Deroceras eru torgreindir til tegunda. Hér á landi hafa þrjár tegundir verið skráðar og eru tvær þeirra, engjasnigill og mýrasnigill (Deroceras laeve), einkar líkar í útliti og er torvelt að lýsa hverju þar munar. Betra er betra að hafa sniglana lifandi til skoðunar. Báðir eru fölbleikir eða drappleitir á lit með dekkra höfuð og háls. Á engjasnigli er sólinn ljosari en bolurinn en nær samlitur bolnum á mýrasnigli.

Ekki skal útilokað að tegundirnar séu fleiri hérlendis. Í nágrannalöndunum eru fleiri nauðalíkar tegundir og gætu þær auðveldlega borist til landsins með jarðvegi og gróðurvörum. Í raun er það aðeins á færi sérfræðinga að aðgreina þessar tegundir með vissu, en sú sérfræðiþekking vegur létt hér á landi. Því skal fyrirvari hafður á því sem hér er skráð um þessa snigla.

Það gerir engjasnigil ekki hvað síst áhugaverðan hér á landi að hann var fyrri tegundin af tveim sniglum til að finnast á Surtsey. Þar varð hans fyrst vart 1998 og hefur fundist reglulega síðan með trygga búsetu í gróskumiklu máfavarpi. Sennilegast er að hann hafi borist til eyjarinnar með fuglum, e.t.v. með því að skríða inn í fjaðrahami fugla sem hafa náttað sig í blautum gróðri fuglabyggða í nágrannaeyjum, eða viðloðandi hreiðurefni sem fuglar hafa borið með sér til eyjarinnar.

Útbreiðslukort

Heimildir

Erling Ólafsson & María Ingimarsdóttir 2009. The land-invertebrate fauna of Surtsey during 2002–2006. Surtsey Research 12: 113–128.

Fauna Europaea. Deroceras agreste. http://www.faunaeur.org/full_results.php?id=421544.

Lindroth, C.H., H. Andersson, H. Böðvarsson & S.H. Richter 1973. Surtsey, Iceland. The development of a new fauna 1963-1970. Terrestrial invertebrates. Ent. Scand. Suppl. 5: 1–280.

Mandahl-Barth, G. 1938. Land and Freshwater Mollusca. Zoology of Iceland IV, Part 65. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 31 bls.

Pfleger, V. & J. Chatfield 1988. A Guide to Snails of Britain and Europe. Hamlyn, England. 216 bls.

Wikipedia. Deroceras agreste. https://en.wikipedia.org/wiki/Deroceras_agreste.

Höfundur

Erling Ólafsson 19. janúar 2017.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Lindýr (Mollusca)
Flokkur (Class)
Sniglar (Gastropoda)
Ættbálkur (Order)
Lungnasniglar (Pulmonata)
Ætt (Family)
Engjasnigilsætt (Agriolimacidae)
Tegund (Species)
Engjasnigill (Deroceras agreste)