Búrbobbi (Physella heterostropha)

Útbreiðsla

N-Ameríka þar sem tegundin er talin upprunnin. Þaðan er hún oftast talin hafa borist til annarra heimshluta. Reyndar ber ekki öllum heimildum saman um það. Í Evrópu í Miðjarðarhafslöndum, norður til Bretlandseyja, Danmerkur og Svíþjóðar og austur í Rússland.

Ísland: Fágætur slæðingur í náttúrunni frá skrautfiskaræktun. Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Opnur í Ölfusi.

Lífshættir

Búrbobbi lifir í ferskvatni, lygnu og hægrennandi og lætur jafnvel bjóða sér allskyns drullubleytur. Hann er í eðli sínu suðrænn og má því telja víst að hér á landi sé hann háður jarðhitaáhrifum og volgu frárennsli frá okkur mönnum. Við þær aðstæður lifir hann veturinn af. Búrbobbi nærist á vatnaplöntum, rotnandi lífrænum leifum, þörungum og gerlum í groti á vatnsbotnum.

Almennt

Í langan tíma hefur búrbobbi verið hafður í skrautfiskabúrum til að hjálpa upp á jafnvægið í vistkerfum í búranna, en hann er ötull við að vinna á rotnandi lífrænum leifum. Þannig hefur leið hans um heiminn verið greið og hann slæðst frá skrautfiskaræktinni út í náttúruna víða um lönd. Flest bendir til að uppruna tegundarinnar sér að rekja til N-Ameríku, en öðrum kenningum hefur einnig verið haldið á lofti, t.d. að hann sé upphaflega kominn frá Miðjarðarhafslöndum. Í öllu falli er hann útbreiddur á þeim slóðum og hefur dreifst þaðan hægt og bítandi norður eftir álfunni. Í Sviþjóð fannst hann fyrst úti í náttúrunni árið1997 og hefur dreist út. Stundum blossar hann upp í miklum fjölda.

Búrbobbi hefur borist úr fiskabúrum út í íslenska náttúru. Hann fannst fyrst úti árið 1978 í Fossvogslæk á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs. Í lækinn féll hitaveitufrárennsli frá byggðinni í Fossvogsdal. Vætanlega hafa sniglarnir borist með frárennslisvatninu niður í lækinn og náð þar fótfestu. Við rannsóknir á vatnalífi í Opnum í Ölfusi árið 2001 fundust þar búrsniglar. Í Opnum gætir jarðhitaáhrifa eins og víða í Ölfusi. Þrem árum síðar fannst þar kransarfi (Egeria densa), vinsæl planta í skrautfiskabúrum ættuð frá Brasilíu, og síðar skrúfugras (Vallisneria spiralis) sem einnig er notuð í fiskabúrum. Báðar þessar plöntutegundir hafa einnig fundist í volgri tjörn á Húsavík, þar sem skrautfiskar lifa einnig góðu lífi. Ætla má að í Opnum hafi landnám vatnaplantna og búrbobba átt sér stað samhliða vegna mengunar frá skrautfiskahaldi. 

Kunnugt er um þrjú tilfelli þar sem búrbobbar hafa náð að þrífast innanhúss á höfuðborgarsvæðinu utan fiskabúra. Árið 2004 komu búrbobbar upp úr sturtuklefa í húsi í Garðabæ eftir fjarveru heimafólks. Árið 2007 var komið að búrbobbum í salernisskál í Reykjavík, en hún hafð ekki verið í notkun í einhvern tíma. Væntanlega má rekja hvort tveggja til þrifa á fiskabúrum á heimilunum. Í síðasta lagi fundust búrbobbar í vaski í bílskúr í Kópavogi, en á því heimili höfðu skrautfiskar aldrei verið haldnir í þau 30-40 ár sem íbúarnir höfðu átt þar heima. Bobbarnir gætu því að hafa borist með lögnum annars staðar frá.

Ætla má að búrbobbi geti orðið ágeng tegund hér á landi og veitt samkeppni öðrum tegundum snigla í volgu ferskvatni.

Fljótt á litið er búrbobbi áþekkur vatnabobba (Radix balthica). Hann er líka egglaga en strýtan áberandi keilulaga fram í odd, munninn lengri og mjórri og það sem mestu máli skiptir, vindingurinn er öfugur, þ.e. hann er vinstra megin þegar horft er neðan á kuðunginn og strýtan veit upp. Liturinn gulbrúnn, skelin þunn og gljáandi, flikrótt, nokkuð gegnsæ en þó sterk.

Útbreiðslukort

Heimildir

Dillon RT, Jr, A.R. Wethington, J.M. Rhett & T.P. Smith 2002. Populations of the European freshwater pulmonate Physa acuta are not reproductively isolated from American Physa heterostropha or Physa integra. Invertebrate Biology 121: 226-234.

Tryggvi Þórðarson 2010a. Forekomst av Egeria densa på Island. Blyttia 68: 231-244.

Tryggvi Þórðarson 2010b. Kransarfi í Opnum í Ölfusi. Náttúrufræðingurinn 80: 135-146.

von Proschwitz, T. 2014. Faunistical news from the Göteborg natural History Museum 2013 – snails, slugs and mussels – with some notes on Sphaerium nucleus (S. Studer) – a freshwater mussel species new to Sweden. Göteborgs Naturhistoriska Museum Årstryck 2014: 39-52.

Wasowicz, P., E.M. Przedpelska-Wasowicz, Lára Guðmundsdóttir & M. Tamayo 2014. Vallisneria spiralis and Egeria densa (Hydrocharitaceae) in arctic and subarctic Iceland. New Journal of Botany 4: 85-89.

Wikipedia. Physella acuta. https://en.wikipedia.org/wiki/Physella_acuta.

Höfundur

Erling Ólafsson 19. janúar 2017.

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Lindýr (Mollusca)
Flokkur (Class)
Sniglar (Gastropoda)
Ættbálkur (Order)
Lungnasniglar (Pulmonata)
Ætt (Family)
Búrbobbaætt (Physidae)
Tegund (Species)
Búrbobbi (Physella heterostropha)