Trjónupeðla (Psilocybe semilanceata)

Almennt

Nytjar

Inniheldur eiturefnin psilocybin og psilocin, efni sem eru skyld taugaboðefninu serotonin og hafa áhrif á miðtaugakerfið. Skammtur sem er 4-8 mg veldur vímukenndu ástandi og skynvillum en mjög er misjafnt hversu mikið af eiturefnunum er í einstökum sveppum. Trjónupeðla er á lista yfir ólögleg fíkniefni. Auk skynvillu geta psilocybin eitranir valdið hræðslu og vænissýki (Kendrick 1992) en til að forðast slæma vímu þá er best að vera í öruggu umhverfi og hafa einhvern viðstaddan sem getur brugðist við ef stefnir í óefni.

Líffræði

Inniheldur eiturefnin psilocybin og psilocin sem verka á miðtaugakerfið.

Skaðsemi

Inniheldur eiturefnin psilocybin og psilocin sem líkjast taugaboðefni og verka á miðtaugakerfið (Kendrick 1992).

Búsvæði

Vex í graslendi, helst ábornu, í beitarhögum, á túnum og grasflötum og virðist tíðari við sjóinn hérlendis, einkum í þéttbýli (Helgi Hallgrímsson óútgefið).

Lýsing

Grannvaxin, allhá, með grágulbrúnum, slíkjugum, topplaga hatti, vex í grasi (Helgi Hallgrímsson óútgefið).

Sveppaldin

Hattur 0,5-1,5 sm, fyrst mjókeilulaga, með innbeygðu barði, síðan klukkulaga, oftast með mjóum hnúf eða toppi, slíkjaður og rákaður í röku veðri; vatnsbreytinn: grábrúnn eða olífubrúnn en þorrnar frá toppnum og verður gulbrúnn eða grágulur, oft með dökku belti á barðinu. Fanir aðstafa-lausstafa, ljósgráar eða grábrúnar fyrst, síðan fjólubrúnar, eggin ljósari. Stafur mjór og langur, 4-10 cm x 1-2 mm, oft bugðóttur, með dálitlu þykkildi neðst, stundum með kragavotti, ljósbrúnleitur, þakinn ljósum, inngrónum hárum, sem grisjast sundur með aldri, svo hann verður brúnflekkóttur, oft með grænleitum blæ neðantil og jafnvel blágrænn neðst, einkum eftir handfjötlun (og sömuleiðis hattbarðið). Hold grábrúnleitt eða grágrænleitt rakt en gulgrátt þurrt. Lykt og bragð minnir á rófur eða hreðkur. Gróduft dökkgrábrúnt. Gró sporbaugótt-möndlulaga, 11-15 x 6-9,5 µm. Þumlur fingurlaga, oft með tveimur totum. Sprettur aðallega í september-október (Helgi Hallgrímsson óútgefið).

Greining

Gæta skal þess að ruglast ekki á öðrum litlum brúnum sveppum sem vaxa í graslendi. Sumir þeirra gætu verið eitraðir.

Útbreiðslukort

Myndir

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Ríki (Kingdom)
Sveppir (Fungi)
Fylking (Phylum)
Kólfsveppir (Basidiomycota)
Undirfylking (Subphylum)
Kempuundirfylking (Agaricomycotina)
Flokkur (Class)
Kempuflokkur (Agaricomycetes)
Undirflokkur (Subclass)
Agaricomycetidae (Agaricomycetidae)
Ættbálkur (Order)
Agaricales (Agaricales)
Ætt (Family)
Strophariaceae (Strophariaceae)
Tegund (Species)
Trjónupeðla (Psilocybe semilanceata)