Holtafaxi (Hypnum cupressiforme)

Útbreiðsla

Fundinn allvíða en þó ekki á miðhálendinu og á Norðausturlandi frá Eyjafirði til Fáskrúðsfjarðar (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Vistgerðir

Vex á steinum og klettum, í urðum og hraunum, á klapparholtum og melum, steyptum veggjum og hlöðnum grjótgörðum (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Lýsing

Plöntur fíngerðar, glansandi, reglulega eða óreglulega fjaðurgreindar, oftast jarðlægar. Blaðendar sveigjast niður að jörðu (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Gróliður

Afar breytileg tegund. Plöntur fíngerðar eða meðalstórar, glansandi, grænar eða gulgrænar, geta verið dálítið brúnleitar, reglulega eða óreglulega fjaðurgreindar, oftast jarðlægar. Rætlingar oft neðan á stöngli og greinum, brúnir, rauðbrúnir eða rauðir, sléttir. Blöð standa oftast nokkuð út frá stöngli og greinum í tvær áttir en blaðendar sveigjast niður að jörðu. Stundum eru blöð nokkurn veginn bein og liggja samsíða stöngli og greinum. Blöð 1,3-2,2 mm, egglensulaga eða lensulaga, mjókka smám saman fram í mjóan, oft rennulaga odd. Blöð stundum svo til heilrend en oftast tennt framan til. Rif stutt og klofið eða vantar alveg. Örblöð fá og mjó, lensulaga, ógreind (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Kynliður

Plöntur einkynja, afar sjaldan með gróhirslum. Stilkur rauðleitur, oftast 2-2,5 sm. Gróhirsla brún, löng og mjó, bogin. Lok með langri, beinni trjónu (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Frumur

Frumur í blaðgrunni oft gulleitar, með þykkum, holóttum veggjum. Horn vel afmörkuð. Hornfrumur oftast með mjög þykkum veggjum, óreglulega ferningslaga. Í efri hluta horna eru frumur smáar en í neðri hlutanum eru frumur mun stærri. Efri hluti horna grænn en neðri oft gulleitur eða brúnn en er stundum grænn eða litlaus (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Útbreiðslukort

Höfundur

Bergþór Jóhannsson 2007

Vex á steinum og klettum, í urðum og hraunum, á klapparholtum og melum, steyptum veggjum og hlöðnum grjótgörðum (Bergþór Jóhannsson 1996a).

Biota

Tegund (Species)
Holtafaxi (Hypnum cupressiforme)