Bleikstinnungur (Carex bigelowii)

Útbreiðsla

Stinnastör er algengasta þurrlendisstör landsins, vex frá láglendi upp í 1100 m hæð. Hæst hefur hún fundist í 1220 m hæð á Kirkjufjalli við Hörgárdal (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Móar og mosaþembur, stundum í votlendi til fjalla (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Meðalstór stör (15–40 sm), nokkuð breytileg en hefur venjulega sterkleg, stinn strá og kvenöxin allþétt efst á stráin. Blómgast í júní.

Blað

Hefur skriðulan jarðstöngul með sterklegar renglur og stinn, hvassþrístrend strá. Blöðin breið, 2,5–5 mm, fagurgræn eða gulgræn, oftast með niðurorpnar blaðrendur. Slíður stoðblaðsins örstutt og oftast svart (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Venjulega tvö, sjaldan þrjú upprétt kvenöx og eitt karlax í toppnum. Axhlífar stuttar, snubbóttar, sjaldan yddar, oft nær kringlóttar, svartar með ljósri miðtaug. Hulstrið grænt eða nær svart, trjónulaust eða stutttrýnt, gljáalaust (Hörður Kristinsson 1998).

Afbrigði

Stinnastörin er skyld mýrastör og geta þær myndað á milli sín kynblendinga (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Greining

Líkist mýrastör en stinnastör þekkist á þéttstæðari og færri kvenöxum, niðurbeygðum blaðröndum, sterklegum, bogsveigðum renglum, dekkri hulstrum og svörtu slíðri stoðblaðs.

Útbreiðslukort

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007

Móar og mosaþembur, stundum í votlendi til fjalla (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota

Tegund (Species)
Bleikstinnungur (Carex bigelowii)