Vorstör (Carex caryophyllea)

Útbreiðsla

Sjaldgæfasta stör landsins, aðeins fundin í hlíðarrótum Herdísarvíkurfjalls á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Búsvæði

Grasivaxnir bollar eða brekkur.

Lýsing

Fremur lágvaxin stör (10–30 sm) með mjó blöð, loðin hulstur, eitt karlax en eitt til tvö kvenöx efst á stráinu.

Blað

Myndar gisnar þúfur eða breiður. Stuttir skriðulir stönglar. Slíður ljós- til dökkbrún. Blöð græn og stinn, slétt á efra borði, 1,5–3 mm breið, styttri en stráin. Neðsta stoðblaðið nær oftast upp á móts við öxin, um 2 sm á lengd. Strá sljóstrend, grönn en upprétt, oftast slétt og feld neðst en svolítið ójöfn efst (Hörður Kristinsson, Lid og Lid 2005).

Blóm

Stutt axskipan með einu, sveru karlaxi og einu til tveimur, aflöngum, fremur þéttstæðum, kvenöxum. Neðri stoðblöð styttra en axið, blaðlaga eða sýlt, með eitt 3–5 mm langt slíður. Axhlífarnar eru ljósbrúnar með himnurönd og upphleyptum, grænum eða brúnleitum miðstreng sem myndar brodd.  Hulstur 2–3 mm löng, broddhærð, ljósgræn eða móleit, taugaber, með stutta eða lítt áberandi trjónu (Hörður Kristinsson, Lid og Lid 2005).

Greining

Minnir á dúnhulstrastör þar sem hún hefur einnig hærð hulstur. Stráin eru þó miklu stinnari, öxin aflengri og axhlífar áberandi grænar við miðstrenginn.

Válistaflokkun

EN (tegund í hættu)

ÍslandHeimsválisti
EN NE

Forsendur flokkunar

Vorstör hefur einungis fundist á einum stað á suðvestanverðu landinu en þar uppgötvaðist hún árið 1978. Vaxtarsvæði vorstarar er u.þ.b. 1250 m2 og talið fullvíst að fullþroska einstaklingar séu færri en 250.

Viðmið IUCN: D

D. Stofn talinn mjög lítill eða með mjög takmarkaða útbreiðslu.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2008: Vorstör er á válista í hættuflokki EN (í hættu).

Válisti 1996: Vorstör er á válista í hættuflokki EN (í hættu).

Útbreiðslukort

Heimildir

Hörður Kristinsson er höfundur staðreyndasíðna Náttúrufræðistofnunar um æðplöntur. Þær eru að megin uppistöðu byggðar á vef hans floraislands.is sem er eingöngu hægt að skoða á www.vefsafn.is . Allar upplýsingar af floraislands.is eru birtar á staðreyndasíðum Náttúrufræðistofnunar.

Hörður Kristinsson. 2008. Íslenskt plöntutal: Blómplöntur og byrkningar. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 51. Náttúrufræðistofnun Íslands, Reykjavík. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_51.pdf

Lid, J. og D.T. Lid. 2005. Norsk flora (7. útg.). Ritstj. Reidar Elven. Det Norske Samlaget, Oslo.

Paweł Wąsowicz. 2020. Annotated checklist of vascular plants of Iceland. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 57. Náttúrufræðistofnun Íslands, Garðabær. https://utgafa.ni.is/fjolrit/Fjolrit_57.pdf

Höfundur

Hörður Kristinsson 2007, Starri Heiðmarsson, Pawel Wasowicz 2018

Ríki (Kingdom)
Plöntur (Plantae)
Fylking (Phylum)
Æðplöntur (Tracheophyta)
Flokkur (Class)
Einkímblöðungar (Liliopsida)
Ætt (Family)
Stararætt (Cyperaceae)
Tegund (Species)
Vorstör (Carex caryophyllea)